Látrabjarg

Undanfarið hefur samstarfshópur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið í Látrabjargi. Tillaga að áætluninni hefur nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar, sjá hér:

Drög að stjórnunar- og verndaráætlun
Aðgerðaáætlun

Látrabjarg var friðlýst sem friðland í mars árið 2021. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt lífríki Látrabjargs og búsvæði fugla og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins og landslagi. Enn fremur er markmið friðlýsingarinnar að vernda menningarminjar og menningararf svæðisins en um menningarminjar fer samkvæmt ákvæðum minjalaga nr. 80/2012.

Nánari upplýsingar um friðlýsta svæðið er að finna hér.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við landeigendur, hagsmunaaðila og sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Aðgerðaráætlun fylgir stjórnunar- og verndaráætluninni.

Eins og áður segir liggja drög að áætluninni nú frammi til kynningar og er öllum frjálst að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna hennar. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 7. maí 2024.

Nýmæli eru í áætluninni hvað varðar takmörkun á flugi yfir bjarginu á varptíma. Samráð var haft við Samgöngustofu við ákvarðanatöku þar sem fallist var á við útfærslu sem er eftirfarandi:

Allt flug innan 3500 feta frá sjávarmáli innan friðlandsins er óheimilt á tímabilinu 1.apríl– 31. ágúst. Undanskilið banninu eru leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar og annarra stofanana sem sinna lögbundum rannsóknum og eftirlitshlutverki með náttúru- og menningarminjum.

Samgöngustofa telur mikilvægt að miða flughæðir við sjávarmál þar sem hæðarmælar flugvéla eru stilltir m.v. sjávarmál.

Jafnframt óskaði Samgöngustofa eftir því að Umhverfisstofnun útfæri textann með tilliti til Flugmálahandbókarinnar þar sem takmörkunin verður birt. 


Gögn í tengslum við útfærslu á sérreglunni má finna hér fyrir neðan:

Önnur gögn og fundargerðir í tengslum við gerð stjórnunar- og verndaráætlunarinnar má finna hér.
Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum hér að neðan eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.


Nánari upplýsingar veitir Þórdís Björt Sigþórsdóttir og Edda Kristín Eiríksdóttir, eða í síma 591-2000.