Undanþágur

Eins og fram kemur í umfjöllun um stöðu regluverksins eru tímafrestir fyrir margar gerðir undanþága liðnir. Þannig leið t.a.m. fresturinn til að nota endurunnin vetnisklórflúorkolefni (HCFC), þ.m.t. kælimiðilinn R22, til að þjónusta kælikerfi undir lok 31. desember 2014. Öll notkun slíkra miðla til viðhalds á kælikerfum, hvort sem þeir eru endurunnir eða ekki, er bönnuð.

Þeir flokkar undanþága sem enn eru ekki liðnir undir lok varða:

  • Framleiðslu, markaðssetningu og notkun efna sem hráefna.
  • Framleiðslu, markaðssetningu og notkun sem hjálparefna við vinnslu.
  • Markaðssetningu efna til eyðingar eða endurheimtar.
  • Markaðssetningu vara og búnaðar til eyðingar.
  • Óhjákvæmilega notkun á rannsóknarstofum og við greiningar.
  • Neyðarnotkun halóna í ákveðnum undantekingartilfellum. Sú neyðarnotkun sem leyfð er fer þó stöðugt minnkandi.

Nýrri og betri lausnir

Það eru liðnir meira en þrír áratugir frá því að ljóst varð að hætta ætti notkun ósoneyðandi efna. Fyrirtæki hafa því haft langan aðlögunarfrest hvað þetta varðar. Fyrir alla helstu notkun slíkra efna eru nú til staðgöngulausnir.

Fyrir þá sem eru að leita að staðgöngukostum vegna kæli- og frystikerfa í skipum (útbreiddustu notkun ósoneyðandi efna á Íslandi) má t.a.m. benda á skýrslu sem unnin var fyrir Norræna óson og F-gasahópinn (NOG):

Umsókn um undanþágu

Umhverfisstofnun annast afgreiðslu umsókna um undanþágur skv. ákvæðum reglugerðar nr. 970/2013 og III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1005/2009.

Rafrænar umsóknir um undanþágur skulu sendar með tölvupósti á póstfangið ust@ust.is - Athugið að til að umsóknir í tölvupósti komist strax til réttra aðila er gott að gefa þeim lýsandi efnislínu s.s. Umsókn um undanþágu vegna ósoneyðandi efna.