Almennt

Framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma bera ábyrgð á þeim rafhlöðum og rafgeymum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn hingað til lands. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun varanna og nær ábyrgð þeirra til landsins alls án tillits til þess hvar varan er seld.

Auk þess eiga framleiðendur og innflytjendur að sjá til þess að rafhlöðurnar og rafgeymarnir séu merktir með mynd af yfirstrikaðri sorptunnu, en merkið gefur til kynna að safna skuli vörunum sérstaklega. Framleiðendum og innflytjendum ber einnig að upplýsa kaupendur um rétta förgun tækjanna og að það sé þeim að kostnaðarlausu.

Nýjustu breytingar

Haustið 2015 voru innleiddar breytingar á reglugerð hvað varðar undanþágur á efnainnihaldi í rafhlöðum og rafgeymum.

  • Hnapparafhlöður sem innihalda minna en 2% af kvikasilfri miðað við þyngd má ekki flytja lengur til landsins en sölu- og dreifingaraðilar hafa leyfi til að selja birgðirnar sínar þar til 1. júlí 2017.
  • Færanlegar rafhlöður og rafgeymar fyrir rafknúin handverkfæri sem innihalda meira en 0,002% af kadmíum miðað við þyngd má ekki flytja inn til Íslands eftir 1. júlí 2017 en sölu- og dreifingaraðilar mega selja birgðir sínar þar til 1. júlí 2018.

Óheimilt er að setja á markað rafhlöður og rafgeyma sem uppfylla ekki skilyrði þessarar reglugerðar.

Lög og reglugerðir