Umhverfistofnun - Logo

Útivist og gönguleiðir

Gönguleiðin Laugavegur í Laugahrauni.

Innan friðlandsins má finna gönguleiðir við allra hæfi og eru nokkrar þeirra merktar inn á kort friðlandsbæklingsins. Göngufólk er beðið um að hafa eftirfarandi í huga.

Ávallt skal fylgja gönguleiðum þar sem þær eru til staðar og ekki ganga inn á lokuð svæði þar sem verið er að vernda viðkvæma náttúru.

Bergið er mjög laust í sér og allt klifur er hættulegt. Best er að fylgja fjallahryggjum eða gilbotnum. Mikið er um læki og ár. Sérstök aðgát skal höfð við hveri svo að ekki sé stigið ofan í heita leðju eða vatn. Jafnan ætti að krækja fyrir gróðurreiti, því að þeir eru oft votlendir og vaðast fljótt út.

Vegna vinds getur hitastig á hálendi breyst mikið á stuttum tíma og því alltaf ástæða til að hafa skjólgóðar flíkur til taks. Vinsælasta gönguleið svæðisins er Laugavegurinn, sem liggur frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Gista má í skálum í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn og í Botnum á Emstrum. Gera þarf ráðstafanir fyrirfram til að fá skálagistingu á leiðinni.

Göngufólk er ávallt hvatt til að skrá ferðaáætlun sína inn á SafeTravel þegar skipuleggja á lengri gönguferðir. Einnig eru allar upplýsingar þar um veður, færð og ástand vega á hálendinu.