Lagnir í sjó

Lagning sæstrengja og neðansjávarleiðslna er háð samþykki Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda og  reglugerð nr. 600/2018 um heimild til lagningar sæstrengja og neðansjávarleiðslna. Framkvæmdir skulu samræmast skipulagi samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða.

Með umsókn til Umhverfisstofnunar um lagningu sæstrengs eða neðansjávarleiðslu skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar um eins og við á hverju sinni:

  • Lýsing á umfangi framkvæmdar og umfangi einstakra framkvæmdaþátta og uppdrættir af staðsetningu og legu.
  • Upplýsingar um gerð, tegund og tilgang lagningar viðkomandi sæstrengs eða neðan­sjávarleiðslu.
  • Upplýsingar um hvernig framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum eða skipulags­stefnu á viðkomandi svæði.
  • Lýsing á staðháttum á framkvæmdarsvæði.
  • Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Telji Umhverfisstofnun að upplýsingar í umsókn séu ófullnægjandi, eftir að hafa gefið fram­kvæmdaraðila kost á úrbótum, skal stofnunin vísa umsókn frá skriflega og gera grein fyrir þeim þáttum sem vanreifaðir eru.