Um svæðið

Gullfoss var friðlýstur árið 1979 og var markmiðið með friðlýsingu Gullfoss að friða fossinn og gljúfrið neðan hans og leyfa fólki að njóta þessara náttúruundra. Lífríki svæðisins og gróður njóta líka friðunar.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með svæðinu.

(Stjórnunar- og verndaráætlun)Samkvæmt aðferðafræði alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) um flokkun friðlýstra svæða þá flokkast Gullfoss undir flokk III. Í þessum flokki eru svæði sem eru afmörkuð til að vernda sérstakar náttúruminjar sem geta verið landslagsfyrirbæri, neðansjávarfjöll, neðansjávarhellisskútar eða jarðminjar. Þessi svæði eru jafnan lítil og reiða sig oft á mun stærri svæði til að geta þrifist. Þetta á sérstaklega við í tilfellum fossa sem reiða sig á mun stærra vistkerfi enda hluti af stórum vatnasviðum sem nauðsynleg eru til að viðhalda rennsli þeirra.

Eftirfarandi reglur gilda um friðlandið:

Mannvirkjagerð og jarðrask og aðrar breytingar á svæðinu eru óheimilar án leyfis Umhverfisstofnunar.

Gangandi fólki er heimil för um svæðið, enda sé góðrar umgengni gætt

Akstur utan vega og merktra ökuslóða er óheimill

Bannað er að skerða gróður, trufla dýralíf og skemma jarðmyndanir.

Notkun flygildis (dróna) er óheimil nema með leyfi Umhverfisstofnunar.