Aðgengi og þjónusta


Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir
Næsta þéttbýli við Látrabjarg er Patreksfjörður sem er í 59 km fjarlægð. Á bifreið er aðeins hægt að komast að Látrabjargi eftir Örlygshafnarvegi nr. 612 sem endar við vitann á Bjargtöngum þar sem finna má bílastæði. Engin vetrarþjónusta er fyrir hendi á þeim hluta leiðarinnar sem liggur upp úr Örlygshöfn og vegurinn að Látrabjargi lokast því í snjóþyngslum. Um malarveg er að ræða og er ástand hans misjafnt yfir sumartímann og full ástæða til að fara varlega. Frá Örlygshafnarvegi um Látraheiði liggur slóði að Keflavík og eftir honum er hægt að komast að bílastæði við Geldingsskorardal. Vinsæl gönguleið liggur frá Rauðasandi og þaðan koma gestir einnig að bjarginu. 

Við Brunna, sem er utan friðlands, er salerni með aðgengi fyrir hreyfihamlaða sem er opið yfir sumartímann. Þar er líka eldunaraðstaða og áningarborð. Á Bjargtöngum eru einnig áningaborð við bílastæði. Næsta tjaldstæði er í Breiðuvík og þar er einnig rekið sumarhótel og veitingastaður. Í friðlandinu er ekki móttaka fyrir sorp en skammt ofan Hvallátra má finna lítinn gám þar sem hægt er að losa sig við úrgang. 

Á sumrin starfa landverðir í friðlandinu. Hlutverk þeirra er að gæta þess að ákvæði laga um náttúruvernd, sérlaga, verndaráætlana og annarra stjórnvaldsfyrirmæla séu virt. Landverðir koma á framfæri upplýsingum og fræðslu til ferðafólks um náttúru og sögu svæðisins auk þess að sjá um daglegan rekstur og viðhald. 

Vert er að vekja athygli gesta á sýningu Minjasafnsins að Hnjóti um björgunarafrekið við Látrabjarg árið 1947 þegar togarinn Dhoon strandaði undir Geldingsskorardal í desember árið 1947 við verstu mögulegu aðstæður. Það er tilvalið að koma við á Hnjóti á leiðinni út á Bjarg en safnið er opið yfir sumartímann.