Umhverfistofnun - Logo

Hvað gera landverðir?

Landverðir starfa í þjóðgörðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum víðs vegar um landið. Störf landvarða eru svipuð en þó ólík frá einu svæði til annars. Margbreytni starfsins ræðst meðal annars af fjölbreyttri náttúru, ólíkum ferðamönnum sem koma víðs vegar að og mismunandi aðstæðum á svæðunum. Á sumum svæðum starfar aðeins einn landvörður, á öðrum vinnur hópur þeirra. Landverðir hafa ólíka menntun og reynslu en áhugi á náttúru og náttúruvernd sameinar hópinn í starfi. Ráðningartími landvarða er mismunandi, töluvert hefur fjölgað í störfum heilsárslandvarða og jafnframt hafa tímabil yfir sumarmánuðina lengst. Mikið fjölgar í hópi landvarða yfir sumarmánuðina.

Margþætt hlutverk landvarða

Móttaka og fræðsla

Landverðir taka á móti gestum og veita þeim nauðsynlegar upplýsingar um náttúru, staðhætti og sögu svæðanna, tjaldsvæði, gönguleiðir, akvegi og nánast hvað annað er ferðamanninn fýsir að vita. Á nokkrum svæðum er gestastofa og skrifstofa þar sem ferðamenn geta gengið að landvörðum vísum til að fá upplýsingar og aðstoð. Þáttur í starfi sumra landvarða er að sjá um rekstur tjaldsvæða og/eða gistiskála.

Náttúrutúlkun

Víða bjóða landverðir gestum upp á náttúrutúlkun. Náttúrutúlkun er sérstakt form fræðslu til að auka ánægju, upplifun og áhuga ferðamanna á umhverfinu. Markmið náttúrutúlkunar er að auka skilning fólks á náttúrunni. Jafnframt vekja með því virðingu fyrir henni, með það fyrir augum að þekking leiði til virðingar og virðingin til verndunar. Náttúrutúlkun er beitt í styttri sem lengri gönguferðum, barnastundum,  fyrirlestrum, gestastofum og í óformlegu spjalli hvar sem tækifæri gefst.

Náttúruvernd og eftirlit

Landvörðum ber að gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt. Þeir fylgjast með því að réttur náttúrunnar sé virtur, meðal annars með því að hafa eftirlit með umferð og umgengni fólks. Landverðir sjá um að merkja göngustíga, leggja nýja og halda þeim við. Á þann hátt opna þeir svæðin fyrir umferð gangandi manna en búa jafnframt  þannig um að náttúran hljóti sem minnstan skaða af.

Alltaf til taks!

Gestir geta leitað til landvarða hvenær sem þörf krefur. Á náttúruverndarsvæðum eru landverðir oft eina staðkunnuga fólkið sem hægt er að leita til í neyðartilfellum og þá reynir á áræðni þeirra og útsjónarsemi, stundum við erfiðar aðstæður.

Menntun

Til að fá réttindi sem landvörður þarf fólk að ljúka sérstöku námskeiði í náttúruvernd og landvörslu sem Umhverfisstofnun og nokkrir aðrir aðilar standa að. Landvarðanámskeið eru að haldin í febrúar ár hvert. Þátttakendur þurfa að vera 18 ára. Á námskeiðinu er m.a. fjallað um:

 a)    Náttúruvernd, stjórnsýslu náttúruverndar og hlutverk landvarða í náttúruvernd.
 b)    Verndargildi friðlýstra svæða, náttúru, menningu og sögu.
 c)    Náttúrutúlkun og fræðslu á náttúruverndarsvæðum.
 d)    Landvörslu, dagleg störf, vinnustaðinn, samskipti og upplýsingagjöf.
 e)    Öryggismál

Námskeiðið spannar fjórar vikur og er kennt tvö kvöld í viku og fjórar helgar. Hægt er að taka hluta námskeiðsins í fjarnámi, en skyldumæting er á hluta þess, m.a. 5 daga vettvangsferð í þjóðgarðinn Snæfellsjökull á námskeiðsstímabilinu. Nemendur greiða námskeiðsgjald og er upphæð þess kynnt samhliða auglýsingum um námskeiðið. Auglýst er í blöðum og á heimasíðu Umhverfisstofnunar.
 Opnað er fyrir skráningu á námskeiðið á heimasíðu Umhverfisstofnunar í byrjun janúar ár hvert. Takmarkaður fjöldi kemst á námskeiðið.

Námsskrá

Hægt er að nálgast námskrá landvarðarnámskeiðsins hér.