Ef þú færð snertiofnæmi fyrir efnum í snyrtivörunum þínum þá fylgir það þér fyrir lífstíð.
Almennt er meiri hætta á að fá snertiofnæmi vegna efna í snyrtivörum sem við skiljum eftir á húðinni en vegna efna í þeim vörum sem við skolum í.
Snertiexem frá snyrtivörum kemur oft fram kringum augun jafnvel þó að skaðvaldurinn sé ekki í augnsnyrtivörum. Skýringin er sú að við förum oft með fingur í andlitið og nuddum á okkur augnlokin og berum þannig efnin þangað.
Ef við fáum snertiofnæmi fyrir ákveðinni snyrtivöru þá þarf jafnvel ekki að nota hana nema á 2 til 3 vikna fresti til að viðhalda exeminu. Þannig getur maskari sem við notum aðra hverja helgi eða sjaldnar verið orsök þráláts exems kring um augu og andlitsfarði sem einungis er notaður um helgar verið orsök exems í andliti.
Dragðu almennt úr efnanotkun þinni. Veltu því fyrir þér hversu mikið af snyrtivörum þú notar og hvort þú þurfir raunverulega á þeim öllum að halda.
Reyndu að átta þig á hvaða vörur innihalda ilmefni. Veldu ilmefnalausar vörur. Ef þú vilt nota einhvern ilm reyndu þá að nota eins fáar ilmvörur og þú getur. Til dæmis getur þú notað ilmefnalaust krem og svitalyktareyði en þess í stað valið hársápu sem ilmar. Ef þú vilt nota ilmvatn þá er góð hugmynd að úða því á fötin þín en ekki húðina, en gáðu fyrst hvort það komi blettir. Athugaðu að náttúruleg ilmefni geta líka valdið ofnæmi.
Auðveld leið til að forðast ofnæmisvaldandi efni í snyrtivörum er að velja ilmefnalausa Svansmerkta vöru. Svansmerktar húð og snyrtivörur uppfylla strangar kröfur varðandi notkun efna sem geta verið ofnæmisvaldandi, ertandi fyrir húðina eða geta haft önnur óæskileg áhrif á heilsuna. Sérstaklega er gætt að efnum sem eru talin raska hormónajafnvægi.
Kannski þarftu bara nýja hárgreiðslu frekar en að lita á þér hárið. Varist að hárlitunarefni komist í snertingu við hársvörðinn. Ef þú færð exem í hársvörðinn eða andlitið eftir litun er ljóst að þú hefur ofnæmi fyrir einhverjum efnum í hárlitum og ættir því ekki að lita á þér hárið.