Jörundur í Lambahrauni

Hellirinn Jörundur var friðlýstur sem náttúruvætti 1985. Dropsteinar í hellinum voru þegar friðlýstir með auglýsingu nr 120/1974, en sú friðlýsing gildir fyrir dropsteina í öllum hellum landsins. Vegna verndunar dropsteina er óheimilt að fara í hellinn án leyfis Umhverfisstofnunar.

Stjórnunar og verndaráætlun Jörundar var staðfest af umhverfis- og auðlindamálaráðherra í september 2020.

Lambahraun

Jörundur er í Lambahrauni, sem er myndað í stóru dyngjugosi fyrir um 4000 árum. Hraunið nær yfir stórt landsvæði sunnan Langjökuls og fyllir dalinn á milli Hlöðufells og Högnhöfða. Hraunið rann einnig austur og suður fyrir Högnhöfða þar sem Úthlíðarhraun markar syðsta anga þess.

Lambahraun myndar stóra, aflíðandi og mjög reglulega dyngju, Lambahraunsdyngjuna. Í kolli dyngjunnar er myndarlegur gígur sem nefnist Eldborgir.

Dyngjur eru algengar á Íslandi og flestar mynduðust þær snemma á nútíma. Myndun þeirra er tengd við hörfun ísaldarjökulsins og fargléttingar af jarðskorpunni. Á meðal þekktustu og stærstu dyngja landsins eru Skjaldbreið, Trölladyngja og Þeistareykjabunga.

Hraunhellar

Hraunhellar finnast einungis í basalthraunum og er helsti fundarstaður þeirra í dyngjuhraunum líkt og Lambahrauni. Það skýrist af því að í dyngjugosum er hraunflæði frá toppgíg dyngjunnar jafnan lítið á  yfirborði, en heit og þunnfljótandi hraunbráðin streymir þess í stað neðanjarðar í gegnum göng og hella. Slíkt gerist þegar skorpa myndast á yfirborði hraunrennslis, sem á endanum verður að þaki yfir bráðinni hraunrás. Þegar innstreymi í hraunrásina stöðvast stendur eftir tóm rásin með þaki yfir og hraunhellir er myndaður. Hraunhellar tryggja einangrun hraunrennslisins og viðhalda hita þess vel. Net slíkra hella getur veitt hraunbráð frá eldstöðinni um langar vegalengdir, jafnvel tugi kílómetra, þar til bráðin brýst fram undan jaðri hraunsins. Í tilfelli Lambahrauns er syðsti oddi Úthlíðarhrauns runninn um 16 km frá gígunum í Eldborgum.

Við eldgos getur hiti basalthrauns verið 1100-1250°C. Eftir að hraun hættir að streyma í gegnum nýmyndaðan helli tekur hann að kólna, en fyrst um sinn er hann nægilega heitur til að valda því að bráð getur farið að dropa úr lofti og veggjum hellisins niður á hellisgólfið. Droparnir hlaðast upp strýtur og drönglar, svokallaðir dropsteinar, en úr loftinu vaxa hangandi hraunstrá sem oft eru hol að innan. Dropsteinar hraunhella myndast einungis í upphafi á meðan lofthiti er nálægt 1000°C og þær heitu aðstæður sem mynda dropsteina hverfa á nokkrum dögum eða vikum. Til viðbótar við þetta hellaskraut er algengt að hellisgólf og veggir séu þakktir örþunnum glerjungi sem molnar við minnsta álag. Heitt loftið í hellunum í upphafi ýtir einnig undir efnahvörf og er bergið í hellunum því oft á tíðum mjög litríkt vegna oxunar.

Dropsteinar hraunhella eru frábrugðnir dropasteinum úr kalksteinahellum erlendis. Slíkar kalksteinamyndanir eru í stöðugri mótum vegna áhrifa vatns á uppleysanlegt bergið í kring.

Þessar jarðmyndanir sem finnast í hraunhellum, dropsteinar, hraunstrá og annað hellaskraut, eru einhverjar þær viðkvæmustu sem finnast í íslenskri náttúru. Þola þær litla sem enga snertingu og eru með öllu óafturkræfar eftir að þeim hefur verið raskað. Það er af þeirri ástæðu sem allir dropsteinar í hellum landsins voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1974 og allir hraunhellar landsins njóta sérstakrar verndunar í náttúruverndarlögum (lög nr. 60/2013). 

Auk Jörundar hafa nokkrir hraunhellar um landið verið friðlýstir og þeim lokað fyrir almenna umferð til að vernda þessar viðkvæmu jarðminjar. Þar á meðal eru Árnahellir og Kalmanshellir, sem báðir eru friðlýstir sem náttúruvætti.