Álafoss, Mosfellsbæ

Sjá þrívíddarkort af svæðinu.

Umhverfisráðherra hefur að tillögu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa Álafoss og nánasta umhverfi hans. Landsvæðið er friðlýst sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa en áin og fossinn tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst ullarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Má enn sjá leifar af tveimur dýfingarpöllum ofan við fossinn sem og leifar af stíflunni. 

Hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð og nær yfir fossinn, töluvert svæði ofan og neðan hans og einnig skóglendi í svonefndu Álanesi sem er einn af eldri skógum bæjar­ins.

Markmiðið með friðlýsingu Álafoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan, nánasta umhverfi hans sem og menningarminjar sem tengjast sögu og þróun Mosfells­bæjar. Svæðið er fjölsótt, bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.