Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Eftirlit


Reglur um rafhlöður og rafgeyma er að finna í IV. kafla laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Umhverfisstofnuna fer með eftirlitshlutverk samkvæmt 37. gr. laganna en reglurnar eru nánar útfærðar í reglugerð um rafhlöður og rafgeyma nr. 1020/2011.

Markmið eftirlitsins er meðal annars að hækka söfnunarhlutfall þessa úrgangs, fylgja eftir banni og takmörkunum á ákveðnum efnum í rafhlöðum og rafgeymum, sjá til þess að upplýsingagjöf til neytenda sé framfylgt og að fylgjast með því að framleiðendur og innflytjendur rafhlaðna og rafgeyma séu skráðir í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.

Mikilvægt er að verkefnið sé unnið í góðu samstarfi við aðila á markaði og að allir hlutaðeigandi komi að því að hvetja notendur til að koma úrganginum í réttan farveg. Umhverfisstofnun hefur sett upp eftirlitsáætlun til ársloka 2024. Í áætluninni er lögð áhersla á eftirlit með framleiðendum og innflytjendum rafhlaða og rafgeyma. Þá verður auk þess lögð áhersla á eftirlit með skyldum sveitarfélaga um móttöku í samstarfi við heilbrigðiseftirlitin. 

Söfnunarhlutfall rafhlaðna var einungis 28% árið 2022. Þá var söfnunarhlutfall blýsýrugeyma 55% sem er lækkun milli ára. Það kann þó að skýrast af því að drifrafhlöður voru teknar með í magni sem sett var á markað en ekki talið með í söfnun sem skekkir söfnunarhlutfall. Samtals er söfnunarhlutfall rafhlaðna og rafgeyma um 52%. Söfnunarmarkmið ársins var hins vegar 65% og því ljós að gera má betur. Mikilvægt að fræða almenning og fyrirtæki um söfnun og rétta förgun á slíkum úrgangi til að ná fram hærra söfnunarhlutfalli. 

Umhverfisstofnun er heimilt vegna eftirlitsins samkvæmt 2. mgr. 37. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 að óska eftir upplýsingum frá Skattinum vegna framleiðslu og innflutnings á rafhlöðum og rafgeymum sem falla undir lögin. Hægt er að óska eftir upplýsingum um  heildarmagn, magn í einstökum flokkum og magn frá einstökum framleiðendum og innflytjendum.