Gott vatn fyrir alla

Þegar rignir sem mest hér á Íslandi getur verið auðvelt að gleyma því að það eru ekki allir jafnheppnir og við Íslendingar, sem eigum nóg af fersku neysluvatni. En staðreyndin er sú að daglega deyja þúsundir manna í heiminum úr sjúkdómum sem tengjast skorti á vatni og hreinlæti.  Rúmlega tveir milljarðar jarðarbúa hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og tvöfalt fleiri eða 4,3 milljarðar hafa ekki aðgang að viðunandi salernis- og hreinlætisaðstöðu. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt voru árið 2015, er að tryggja aðgengi allra jarðarbúa að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, auk þess að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns. Um er að ræða heimsmarkmið nr. sex sem nefnist „Hreint vatn og hreinlætisaðstaða“

Ríkisstjórn Íslands hefur sett í forgang að vinna að auknum vatnsgæðum á Íslandi með því að draga úr mengun, útiloka óæskilega sorplosun, auka skólphreinsun frá þéttbýli og lágmarka losun hættulegra efna út í umhverfið. Auk þess verði stuðlað að verndun og endurheimt vatnavistkerfa og koma á stjórnun vatnsauðlinda sem verði samþætt á öllum sviðum. Innleiðing á samræmdri stjórnun vatns á Íslandi (stjórn vatnamála) er mikilvægt skref í verndun vatnsauðlindarinnar til framtíðar. Mikilvægt er að fylgjast með gæðum vatns um allt land og sjá til þess að alþjóðlegar skuldbindingar um gæði þess séu uppfylltar. Samkvæmt tilskipuninni er markmið allra Evrópulanda að yfirborðsvatn og grunnvatn sé í  viðvarandi góðu ástandi. Tilskipunin nær yfir grunnvatn og allt yfirborðsvatn (þ.e. straumvötn, stöðuvötn, jökla, lón, árósavatn og strandsjó).

Umhverfisstofnun sér um innleiðingu á vatnatilskipun, en að henni koma einnig fagstofnanir á borð við Hafrannsóknastofnun, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Jafnframt gegna heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna mikilvægu hlutverki við innleiðinguna ásamt ýmsum öðrum aðilum s.s. Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Matís, Jarðvísindastofnun Háskólans, Orkustofnun og Matvælastofnun. Tvær ráðgjafanefndir starfa á landsvísu innan stjórnar vatnamála, annars vegar ráðgjafanefnd hagsmunaaðila og hinsvegar ráðgjafanefnd fagstofnanna og eftirlitsaðila ásamt  fjórum vatnasvæðanefndum . Stjórn vatnamála er því heildstætt stjórnkerfi sem teygir anga sína allt frá almenningi til ráðuneyta með það sameiginlega markmið að viðhalda og bæta gæði vatns. Staðreyndin er sú að vatnsauðlindin kemur okkur öllum við og allir þurfa að leggja sitt á vogarskálarnar til að vernda hana.