Umhverfistofnun - Logo

Úthlutun losunarheimilda

Frá 1. janúar 2013 gilda samræmdar reglur um endurgjaldslausa úthlutun til lögaðila í kerfinu, óháð því í hvaða aðildarríki þeir starfa. Markmiðið er að draga jafnt og þétt úr úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda, eða frá 80% árið 2013, 30% árið 2020 og svo niður í 0% árið 2030. Úthlutunin byggir á árangursviðmiði (e. benchmark) sem ákvarðað hefur verið, sbr. ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2011/278/ESB. Þar eru skilgreindar fjórar gerðir árangursviðmiða, framleiðsluviðmið (e. product benchmark), varmaviðmið (e. heat benchmark), eldsneytisviðmið (e. fuel benchmark) og losun frá framleiðsluferli (e. process emission). Mismunandi árangursviðmið taka mið af mismunandi ferlum og aðstæðum í starfsstöðvum og starfsstöðvarhlutum, en ógjörningur er að nota almenn viðmið sökum þess hve margvíslegar tegundir starfsemi heyra undir gildissvið viðskiptakerfisins. Gert er ráð fyrir að geirar eða undirgeirar sem er sérstaklega hætt við svonefndum kolefnisleka fái hlutfallslega fleiri losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust en aðrir geirar, eða 100% af hlutdeild þeirra miðað við árangursviðmið. Með kolefnisleka er átt við að viðskiptakerfið leiði til mikillar hækkunar á framleiðslukostnaði fyrirtækja m.a. vegna hærra raforkuverðs og hamli samkeppni þeirra við fyrirtæki í ríkjum utan ESB. Gefinn er út sérstakur listi yfir geira sem hætt er við kolefnisleka. Á þriðja tímabilinu var öll starfsemi á Íslandi sem féll undir viðskiptakerfið frá 2013 á þeim lista og því voru hlutfallslega fleiri losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust á tímabilinu 2013–2020 en almenna reglan segir til um. Listinn hefur verið uppfærður fyrir árin 2021-2030 og af þeim íslensku rekstraraðilum sem fyrir voru á listanum hafa fiskimjölsverksmiðjur dottið út.

Útreikningur á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda fer þannig fram að fyrirtæki í kerfinu skila upplýsingum um sögulega starfsemi sína. Fyrir fyrri hluta 4. tímabils eru það árin 2014-2018 og fyrir seinni hluta tímabilsins árin 2019-2024. Út frá þessum upplýsingum er reiknuð út sögulega starfsemi hverrar starfsstöðvar á viðkomandi tímabili í samræmi við aðferðafræði sem fram kemur í ákvörðuninni. Þessi sögulega starfsemi er margfölduð með viðeigandi árangursviðmiði og að teknu tilliti til kolefnisleka fæst bráðabirgðafjöldi losunarheimilda sem úthluta ber viðkomandi starfsstöð.

4. tímabili viðskiptakerfisins hefur verið skipt upp í tvö úthlutunartímabil. Fyrra tímabilið eru árin 2021-2025 og það seinna 2026-2030. Rekstraraðilar hafa kost á því að sækja um endurgjaldslausar losunarheimildir fyrir árin 2021-2025 til og með 14. júní 2019. Ríkjum ber svo fyrir 30. september 2019 að senda framkvæmdastjórninni niðurstöður sínar um bráðabirgðafjölda losunarheimilda fyrir fyrri hluta 4. tímabils í formi lista sem kallast á ensku „national implementation measures (NIMs)“. Framkvæmdastjórninni ber í kjölfarið að reikna út leiðréttingarstuðul sem liggur þvert á geira (e. cross-sectoral correction factor), en hann hefur verið nefndur almennur leiðréttingarstuðull. Almenna leiðréttingarstuðlinum er ætlað að tryggja að heildarfjöldi losunarheimilda samkvæmt útreikningum ríkjanna fari ekki fram úr hámarksfjölda losunarheimilda sem úthlutað verður endurgjaldslaust til staðbundinnar starfsemi í kerfinu árlega frá árinu 2013. Ef framkvæmdastjórnin hafnar ekki útreikningum ríkis tekur ríkið í kjölfarið endanlega ákvörðun um úthlutun til hverrar starfsstöðvar, reiknaða í samræmi við almennan leiðréttingarstuðul ef þarf. 

Eftirfarandi tafla sýnir þær heimildir sem íslenskir rekstraraðilar fengu úthlutað endurgjaldslaust á þriðja tímabilinu:

 

Installation ID
Rekstraraðili
Úthlutun gjaldfrjálsra heimilda (tonn CO2)
20132014201520162017201820192020
IS-new-IS002Alcan á Íslandi hf.278.456273.620268.727263.782258.784253.738248.629243.501
IS-new-IS003Alcoa Fjarðaál sf.501.832493.116484.297475.386466.379457.285448.077438.837
IS-new-IS004Norðurál Grundartanga ehf396.164389.284382.322375.287368.177360.997353.728346.434
IS-new-IS006Elkem Iceland281.834276.939271.986266.981261.923256.816251.645246.456
IS-new-IS015Fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar hf.4.5584.4794.3994.3184.2364.1534.0703.986