Gróður

Á láglendi friðlandsins í Vatnsfirði er birkikjarr útbreitt eins og víðar við norðanverðan Breiðafjörð. Í birkiskóginum eru víða reynitré sem punta upp á skóginn með hvítum blómum á sumrin en rauðum berjum þegar haustar. Undirgróður í kjarrinu er mjög fjölbreyttur. Þar er meðal annars blágresi, einir og lyngtegundir. Helstu lyngtegundir á svæðinu eru bláberja-, aðalbláberja- og krækilyng en einnig er sortulyng algengt svo og hrútaberjalyng.

Birkikskógurinn í friðlandinu er á mismunandi aldri. Sumstaðar má finna gömul tré með fléttum og sveppum. Þar er skógurinn gisinn og að falli kominn. Á öðrum stöðum er þéttur ungskógur sem er að koma upp en þannig endurnýjar birkiskógur sig. Á síðustu árum hefur birkiskógur breidd úr sér við norðanverðan Breiðafjörð og hækkað í kjölfar minnkandi beitar og einnig hlýnandi veðurfars. Vegna minnkandi beitar er skógurinn erfiðari yfirferðar nema þar sem göngustígar eru ruddir.

Mýrar eru á láglendi friðlandsins. Þær eru ekki miklar en klófífa er alengasta tegundin. Við ána Pennu er birkikjarr í votlendi þar sem mýrarstör er áberandi en á milli eru forblautar mýrar. Við vestanverða Pennu er grasnykra í lækjum.

Á hálendi friðlandsins er gróðurþekja minni en á láglendinu. Í snjódældum eru blómskrúð s.s. maríustakkur, fjallasmári, grámulla, skollafingur og fjandafæla. Einnig eru burknar s.s. skjaldburkni og fjöllaufungur algengir á snjóþyngri svæðum.  Mosar, fléttur og skófir eru áberandi sem setja fallegan svip á annars gróðurlítið svæði. Það sama á við um skriður og kletta á láglendi. Megnið af þeim eru skreytt með fléttum og mosum.

Sjávarfitjar eru við Vatnsfjörð á nokkrum stöðum. Þær eru ekki mjög víðáttumiklar eins og víða við Breiðafjörð. Sjárvarfitar eru grassvæði við sjó, sem fellur yfir á flóði, þar er sjávarfitjungur ríkjandi tegund ásamt kattartungu og fjöruarfa.

Við sjávarmálið eru víða bóluþangs- og klóþangsbreiður en leirur innst í Vatnsfirði. Úti við Hörgsnes vex marhálmur út í sjó en víða við Breiðafjörð eru marhálmsgræður. Marhálmur er graskennd planta sem vex út í sjó og er mikilvæg fæða fyrir marga fugla s.s. gæsir og álftir.