Surtsey

Eldstöðin

Surtsey er útvörður Íslands í suðri og ein af úteyjum Vestmannaeyja. Surtsey myndaðist í eldgosi sem fyrst varð vart á yfirborði sjávar 14. nóvember 1963. Eldgosið hefur þó að öllum líkindum hafist nokkrum dögum áður sem neðansjávargos á um 130 metra sjávardýpi.

Í eldsumbrotunum mynduðust auk Surtseyjar, eldfjallaeyjarnar Surtla, Syrtlingur og Jólnir, en eldvirkni í þeim stóð stutt og þegar henni lauk átti sjórinn auðvelt með að brjóta þær niður. Eldfjallaeyjarnar hurfu því fljótt af yfirborði sjávar, en ummerki þeirra má sjá neðansjávar. Eldvirkni í Surtsey stóð hinsvegar yfir í tæp fjögur ár með nokkrum goshléum. Þegar hraun runnu á eynni varð hún betur varin fyrir ágangi sjávar eftir að gosi lauk, en það var fyrst og fremst myndun móbergs sem tryggði framtíð Surtseyjar sem ein af úteyjum Vestmannaeyja.

Surtseyjareldar er lengsta og best þekkta eldgos í sögu Íslandsbyggðar, þar sem fylgst var náið með gangi eldgossins frá upphafi. Surtseyjargosinu lauk 5. júní 1967.

Friðlýsing

Fljótlega eftir að Surtsey myndaðist sáu vísindamenn tækifæri til að fylgjast með þróun eyjarinnar og landnámi lífvera. Surtsey var friðuð árið 1965 meðan gosvirkni var enn í gangi og var friðunin bundin við eldfjallið ofansjávar. Friðlýsingin var endurnýjuð árið 1974 með skírskotun til nýrra náttúruverndalaga. Í tengslum við tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrána, árið 2006, var friðlandið stækkað verulega og nær í dag yfir alla eldstöðina Surtsey, ásamt hafsvæðið umhverfis, samtals 65 ferkílómetra.

Með friðlýsingunni 1965 var tekið fyrir umferð ferðamanna út í eyna og gildir það enn þann dag í dag, nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Var þetta gert fyrst og fremst til að forðast aðflutning lífvera af mannavöldum, til að vernda viðkvæma náttúru og stuðla að því að eyjan fengi að þróast eftir lögmálum náttúrunnar án áhrifa eða afskipta mannsins.

Umsjón

Umhverfisstofnun fer með umsjón friðlandsins og frá maí 2008 hefur hún rekið starfsstöð í Vestmannaeyjum. Starfsmaður Umhverfisstofnunar í Vestmannaeyjum og sérfræðingur friðlandsins Surtsey er Daníel Freyr Jónsson, jarðfræðingur.

Umhverfisstofnun hefur til ráðgjafar um málefni friðlandsins sex manna ráðgjafarnefnd sem skipuð er til fjögurra ára í senn. Fulltrúi Umhverfisstofnunar er jafnframt formaður nefndarinnar.

Fulltrúar ráðgjafanefndar friðlandsins Surtsey 2020

  • Daníel Freyr Jónsson, Umhverfisstofnun
  • Lovísa Ásbjörnsdóttir, Surtseyjarfélaginu
  • Borgþór Magnússon, Náttúrufræðistofnun Íslands
  • Lilja Gunnarsdóttir, Hafrannsóknastofnun
  • Páll Marvin Jónsson og Ólafur Lárusson, Vestmannaeyjabæ

Heimsminjaskrá

Heimsminjasamningur UNESCO frá árinu 1972 fjallar um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins og undirrituðu íslensk stjórnvöld samninginn árið 1995. Með samningnum viðurkenna ríki nauðsyn verndunar og skuldbinda sig að tryggja varðveislu þeirra, þar sem það er talið skaða arfleifð allra þjóða heims ef einhver hluti hinnar menningarlegu eða náttúrulegu arfleifðar spillist eða hverfur. Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd samningsins fyrir Íslands hönd.

Haustið 2005 ákváðu íslensk stjórnvöld að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO og sá Náttúrufræðistofnun Íslands um tilnefninguna hennar.

Tilnefningaskýrsla Surtseyjar á heimsminjaskrá 2007

Á fundi heimsminjanefndar UNESCO í Québec í Kanada, 7. júlí 2008, var samþykkt að setja Surtsey á heimsminjalistann sem einstakan stað náttúruminja á grundvelli mikilvægi rannsókna og vöktunar á landnámi dýra og plantna ásamt þróun eyjunnar og framvindu lífríkis Surtseyjar.

Surtsey er annað svæðið á Íslandi sem er samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO en árið 2004 voru Þingvellir samþykktir á skrána sem einstakur staður menningarminja.

Sú framsýni að friða Surtsey árið 1965, ásamt vöktun og rannsóknum vísindamanna á lífríki og jarðfræði eyjarinnar, á stóran þátt í því að Surtsey er á heimsminjaskrá UNESCO.

Friðlandið Surtsey á heimasíðu UNESCO

Fróðleikur

Loftmyndir hafa verið teknar reglulega af Surtsey síðan febrúar 1964 og hefur Surtseyjarfélagið séð um að það sé gert. Í byrjun voru það Landmælingar Íslands sem sáu um loftmyndatökurnar en á síðustu árum hafa Loftmyndir ehf. tekið loftmyndir af Surtsey. Reglubundnar loftmyndatökur gefa mikilvægar upplýsingar um vöxt og rof eyjarinnar.

Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands gáfu út árið 2000 jarðfræðikort af Surtsey í mælikvarða 1:5000. Höfundur jarðfræðikortsins er Sveinn P. Jakobsson jarðfræðingur. Endurskoðuð útgáfa af jarðfræðikortinu fylgdi með tilnefningaskýrslu Surtseyjar á heimsminjaskrá UNESCO árið 2007 sem Náttúrufræðistofnun Íslands sá um að gera.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands eru til stafræn landupplýsingagögn af Surtsey frá mismunandi árum.

Sjómælingasvið Landhelgisgæslu Íslands, áður Sjómælingar Íslands, hefur séð um sjómælingar og kortlagningu hafsbotnsins í kringum Surtsey frá upphafi. Sumarið 2007 sá sjómælingasvið um að kortleggja hafsbotninn með fjölgeislamælum.

Tenglar

Rannsóknir

Surtsey hefur hingað til verið sem náttúruleg rannsóknastöð í jarðfræði og líffræði og mun verða það áfram. Neðansjávargos eru ekki óalgeng í heimshöfunum og að meðaltali myndast tvær nýjar eldfjallaeyjur á hverri öld, sem oftast hverfa fljótt af sjávarborði. Sérstaða Surtseyjar, í samanburði við aðrar eldfjallaeyjar, felst í því að hún stendur af sér ágang sjávar og þróast eftir lögmálum náttúrunnar án áhrifa eða afskipta mannsins. Surtsey er mest rannsakaða eldfjallaeyja heims þar sem hægt er að reka jarðsögu eyjarinnar frá upphafi, þ.e. myndun, mótun og þróun lífríkis.

Surtseyjarfélagið var stofnað árið 1965, en hlutverk þess er að samræma og leitast við að efla vísindarannsóknir í friðlandinu Surtsey. Surtseyjarfélagið hefur staðið fyrir byggingu rannsóknahússins Pálsbæ, þyrlupalli og gefið út skýrslur með niðurstöðum vísindarannsókna í Surtsey.

Rit Surtseyjarfélagsins. 

Fjölmargir vísindamenn, bæði innlendir og erlendir, hafa stundað margvíslegar rannsóknir í Surtsey í gegnum árin. Vísindamenn Náttúrufræðistofnunar Íslands stunda rannsóknir og annast reglubundna vöktun á náttúrufari friðlandsins í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina og Surtseyjarfélagið. 

Tveir hópar vísindamanna fara reglulega í rannsóknaleiðangra út í Surtsey.

  • Jarðfræðingar hafa m.a. fylgst með sjávarrofinu, sigi eyjarinnar, þróun jarðhitasvæðisins, útfellingum sjaldgæfra steinda og myndun móbergs úr gosöskunni.
  • Líffræðingar hafa m.a. fylgst með landnámi plöntu- og dýrategunda, þróun vistkerfa og framvindu gróður- og dýrasamfélaga.