Dyrhólaey

Af hverju er Dyrhólaey friðlýst?

Dyrhóley er 120 m hár móbergsstapi sem rís þverhnýptur úr hafi. Mjór bergrani tengir eyjuna við land og í honum er gatið eða dyrnar sem stapinn ber nafn sitt af. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978 en þar er mikil náttúrufegurð og fuglalíf og eyjan því vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Stærð friðlandsins er 147,2 ha.

Tengt efni

Umsjón

Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu og þar starfar landvörður. Unnið er að því að bæta aðstöðu fyrir gesti í friðlandinu, gerð bílastæðis á Lágey og byggingu salernishúss, gerð göngustíga og bættu öryggi.

Aðgengi

Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring. Umhverfisstofnun hefur heimild til að takmarka umferð í Dyrhólaey og hefur stofnunin ákveðið síðustu ár hvort og hversu lengi svæðið skuli lokað fyrir umferð almennings til verndunar fuglalífi.

Undanfarin ár hafa verið talsverðar deilur vegna Dyrhólaeyjar, þar sem ólík sjónarmið eru uppi á svæðinu um það hvort og hversu lengi loka skuli eynni. Þar takast á ýmsir hagsmunir. Umhverfisstofnun tekur ákvarðanir með hagsmuni umhverfis og almannarétt að leiðarljósi. Það er mikilvægt að fólk virði þær ákvarðanir sem teknar eru til verndar náttúru og dýralífi jafnt sem þeim sem tryggja almannarétt og umgengni um svæði.

Svæði í hættu

Svæðið er á appelsínugula listanum

Auglýsing nr. 101/1978 í Stjórnartíðindum. 

Styrkleikar

Verndargildi svæðisins felst í fuglalífi þó í eðli sínu sé svæðið ekki síður merkilegt með tilliti til landslags. Svæðið er nytjað af nytjarétthöfum, þ.e. með dúntekju og beit. Samkvæmt auglýsingu um svæðið þá getur Umhverfisstofnun takmarkað ferðir út í Dyrhólaey á tímabilinu 1. maí til 25. júní vegna verndunar fuglalífs. Fuglafræðingur hefur árlega verið fenginn til að meta ástand fuglalífs í eyjunni m.t.t. þarfa á lokun. Svæðið dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna. Gerður hefur verið umsjónarsamningur við sveitarfélagið Mýrdalshrepp um umsjón svæðisins og er landvarsla í eynni á þess vegum, auk landvarðar frá Umhverfisstofnun, á varptíma. Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar og starfsmenn Mýrdalshrepps hafa unnið að ýmsum verkefnum í eynni. Þannig hafa gönguleiðir verið afmarkaðar, settar hafa verið upp girðingar og merkingar, gróður hefur verið endurheimtur og spornað hefur verið við utanvegaakstri. Með tilkomu nýrra gönguleiða á svæðinu er stýring og dreifing ferðamanna mun skilvirkari en áður. Í kjölfar berghruns 2012 var stígur færður til og girt rækilega af. Unnið hefur verið að gerð verndaráætlunar sem er á lokametrunum. Sett hafa verið upp salerni á Háey sem eru í umsjón sveitarfélagsins og stendur til að endurnýja vatnstank þar.

Veikleikar

Svæðið er viðkvæmt en þolir mikinn fjölda ferðamanna séu sterkir innviðir fyrir hendi. Mikil umferð ferðamanna um ekki stærra svæði setur talsvert álag á stígakerfið sem sífellt þarf að huga að. Úttekt á fuglalífi í eynni gefur til kynna að öllum tegundum sem taldar voru hefur fækkað verulega frá aldamótum. Að mati fuglafræðinga er að verulegu leyti um að kenna fæðuskorti í hafi.

Ógnir 

 • Álag á Dyrhólaey af völdum ferðamanna er töluvert en þó er búið að ná að stýra umferð að mestu og álag því svæðisbundið.
 • Í Mýrdal hafa verið deilur um málefni friðlandsins Öryggi ferðamanna er enn ábótavant, brattir hamraveggir sem kunna að reynast hættulegir fari ferðamenn óvarlega. Úttekt á hrunhættu hefur verið framkvæmd. Talsverðar úrbætur verið gerðar og hafa öryggisgirðingar verið settar upp. 
 • Vegurinn upp á Háey þarfnast úrbóta en hann var þó lagaður vorið 2012. Sömuleiðis þarf að breikka veginn að bílastæði á Lágey, en til stendur að bæta þar úr sumarið 2014. Einnig þarf að leggja bundið slitlag á vegin upp á Háey og ganga frá almennilegu bílastæði þar. 
 • Veruleg fækkun er á fugli í eynni. 
 • Lágflug þyrlna. 
 • Rusl berst utan af sjó inn í ósinn. 

 Tækifæri 

 • Nýtt deiliskipulag er í vinnslu. 
 • Færsla bílastæðis til vesturs, ásamt stækkun þess og bættri stýringu. 
 • Salernishús á Lágey 
 • Framkvæmdir samkvæmt nýju deiliskipulagi. 
 • Stýring á umferð, bæði vélknúinni og umferð gangandi vegfarenda. 
 • Endurheimt fuglalífs eftir því sem kostur er. 
 • Sátt um stjórnun friðlandsins þarf að ríkja milli aðila. 
 • Úrbætur í öryggismálum og upplýsingagjöf. 
 • Verndaráætlun er á lokastigi. 
 • Gera þarf vöktunaráætlun til að vakta grunnþætti lífríkis í eyjunni auk áhrifa ferðamanna á friðlandið. 
 • Aukin landvarsla hefur verið í eynni á vegum sveitarfélags og Umhverfisstofnunar. 
 • Afmarka þyrfti enn betur útlínur vega og breikka veg til að koma í veg fyrir utanvegaakstur. Þó hefur mikið áunnist á árinu 2014.
 • Halda þarf áfram með úrbætur í öryggismálum og upplýsingagjöf. 
 • Miklar úrbætur hafa verið gerðar í innviðum, stígum, skiltum o.s.frv. Má þó bæta enn frekar. 
 • Stýring og dreifing ferðamanna hefur breyst til batnaðar.

Dyrhólaey