Menning og saga

Fornar nytjar

Litlar heimildir eru til um búsetu innan friðlandsins enda landið ekki til þess fallið að studna þar hefðbundinn búskap. Samkvæmt þjóðsögu átti Torfi Jónsson frá Klofa að hafa flúið þangað með hyski sitt og hafst við í Jökulgili á meðan Plágan seinni reið yfir á 15. öld og Torfajökull nefndur eftir honum. 

Sr. Jón Torfason, prestur á Stóruvöllum skrifar um Landmannaafrétt árið 1841 í sóknarlýsingu sinni.  Hann minnist á gögn og gæði, sem í þessum auðnum og öræfum mátti fá fyrrum, svo sem fjallagrös, rót, silungs- og álftaveiði. Má af orðum hans ráða, að á hans tíma séu hlunnindi þessi minna nýtt en áður hafði verið um aldir. 

Búfjárbeit og göngur

Fjallreiðir á Landmannaafrétt hafa löngum verið ævintýra- og svaðilfarir.  Náttúran gat verið ógnvænleg, þar sem á skiptust víðáttumiklir eyðisandar og brunahraun, og allra veðra von.  Við bættist hræðsla manna við hið óþekkta í auðnunum, huldufólk, tröll og útilegumenn.  Af ótta við útilegumenn leituðu fjallmenn ekki fjár í Jökulgili fyrr en eftir 1850.  Helstu áningarstaðir gangnamanna í friðlandinu eru Landmannahellir og Landmannalaugar.  Sagt er að í hellinn megi koma um 70 hestum, en smákofi sem hlaðinn var undir bergið í hellismunnanum rúmaði fjóra menn. Ennig sváfu menn í tjöldum umhverfis hellinn, en 1907 var fyrsta sæluhúsið reist við Landmannahelli.

Löngum hafa Landmannalaugar verið eins konar helgistaður gangnamanna. Þar var svo grösugt að nóg var fyrir 30 hesta í tvo til þrjá sólarhringa og laugakaffið, sem hellt var upp á beint úr heitri uppsprettu, þótti frábærlega gott og jafnvel margra meina bót. Borghlaðni kofinn við lækinn í Laugum er talinn mjög gamall en þar geta dvalið þrír menn. 

Vörður

Gamlar friðaðar vörður eru víða í friðlandinu og eru Minjastofnun búin að skrásetja nokkrar þeirra. Lengsta varðaða leiðin á Fjallabaki er svokölluð Landmannaleið sem liggur frá Galtalæk í Landsveit að Svartárnúpi í Skaftártungu. Byrjað var að varða leiðina um eða fyrir 1895 og var að mestu lokið 1907. Alls munu vörðurnar hafa verið 798 talsins og margar þeirra eru uppistandandi í dag. Vörðurnar voru númeraðar frá austri til vesturs og við gamla sæluhúsið í Landmannahelli var varða nr. 522.