Umhverfistofnun - Logo

Almennt

Snyrtivörur er fjölbreyttur vöruflokkur og gilda ákveðnar reglur um markaðssetningu þeirra, sem eiga að tryggja gæði og lágmarka neikvæð áhrif sem geta fylgt notkun þeirra. Umhverfisstofnun fer með framkvæmd snyrtivörureglugerðar hér á landi en heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gefa út starfsleyfi fyrir snyrtivöruframleiðslu.

Ný reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur tók gildi 11. júlí 2013 en með henni var reglugerð Evrópusambandsins nr. 1223/2009 innleidd hér á landi. Með henni er m.a. komið á samræmdu tilkynningarferli og gagnagrunni yfir allar snyrtivörur á markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðin gerir auknar kröfur til framleiðenda og innflytjenda um að sýna fram á öryggi snyrtivara og tilkynna um óæskileg áhrif af völdum þeirra. Nafngreindur ábyrgðaraðili á Evrópska efnahagssvæðinu skal uppfylla skyldur framleiðanda eða innflytjanda.

Með breytingunum er ætlunin að stuðla að öruggari snyrtivörum á markaði, auka rekjanleika þeirra og einfalda stjórnsýslu.

Reglugerðin innleiðir reglugerð (EB) nr. 1223/2009. Allar breytingar á reglugerð 1223/2009 eru  innleiddar hérlendis. Kröfur til innihaldsefna eru birtar í III til VI viðauka. 

 • I viðauki: Öryggisskýrsla um snyrtivörur
  • Um viðmiðunarreglur I viðauka skv. ESB reglugerð nr. 674/2013
 • II viðauki: Efni sem eru bönnuð í snyrtivörum
 • III viðauki: Efni sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum með skilyrðum
 • IV viðauki: Litarefni sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum 
 • V viðauki : Rotvarnarefni sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum
 • VI viðauki: Efni til síunar útfjólublárra geisla sem leyfilegt er að nota í snyrtivörum

Skilgreining á snyrtivörum

 • Snyrtivörur eru efni eða efnablöndur sem ætlaðar eru til notkunar á mannslíkamann s.s. hörund, hár, neglur, varir, ytri kynfæri, tennur eða slímhimnu í munni. Snyrtivörum er einkum ætlað að hreinsa, breyta útliti, veita ilm, bæta líkamsþef eða vernda og halda líkamshlutum í góðu ástandi. Snyrtivörur mega ekki, við eðlilega notkun, vera skaðlegar heilsu manna.
 • Eftirtalin efni og vörur teljast ekki vera snyrtivörur: Efni og vörur til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi, ýmis efni sem ætluð eru til notkunar til þess að meðhöndla sjúkdóma, verki eða veikindi, efni sem sprautað er undir húð, sótthreinsivörur, lyf, húðflúrunarlitir, lúsameðul og ýmislegt fleira.

 Leiðbeinandi listi yfir flokka snyrtivara:

 1. Krem, fleyti, húðmjólk, hlaup og olíur fyrir húð (hendur, andlit, fætur o.s.frv.).
 2. Andlitsmaskar.
 3. Lituð dagkrem (fljótandi, pasti, púður).
 4. Förðunarpúður, baðpúður, hreinlætispúður o.s.frv.
 5. Handsápa, ilmsápa o.s.frv.
 6. Ilmvatn, snyrtivatn og kölnarvatn.
 7. Bað- og steypibaðsvörur (sölt, froða, olía, hlaup o.s.frv.).
 8. Háreyðingarvörur.
 9. Lyktareyðir, svitalyktareyðir.
 10. Hársnyrtivörur; hárlitunar- og aflitunarvörur, hárliðunar- og afliðunarvörur, festir, hárlagningarvörur, hárhreinsivörur (vökvi, hárhreinsiduft, hárþvottalögur), hárnæringarvörur (vökvi, krem, olía), hárgreiðsluvörur (vökvi, hárlakk, hárgljái).
 11. Rakstursvörur (sápa, froða, vökvi o.s.frv.).
 12. Andlits- og augnförðunarvörur og viðeigandi hreinsiefni.
 13. Varaáburður.
 14. Vörur til tann- og munnhirðu.
 15. Naglasnyrtivörur og naglalakk.
 16. Vörur fyrir viðkvæm þrif útvortis.
 17. Sólbaðsvörur.
 18. Brúnkukrem án sólar.
 19. Efni til að lýsa húð.
 20. Efni sem vinna gegn hrukkum.

Tengt efni