Umhverfisstofnun fer með daglega umsjón náttúruvættisins og er þar dagleg landvarsla, allt árið um kring. Vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Skógafoss lauk á vormánuðum 2019. Með henni eru markaðar markvissar stjórnunaraðgerðir til 2028 til sjálfbærrar verndunar þeirrar fegurðar og krafts sem Skógafoss býr yfir. Verndaráætlunin var unnin í sameiningu af Umhverfisstofnun, Rangárþingi Eystra og landeigendum Ytri-Skóga og Drangshlíðardals.
Sérstakar reglur á svæðinu
- Næturgisting er einungis heimil á tjaldsvæðinu neðan við fossinn. Á það við um húsbíla, ferðavagna og tjöld.
- Óheimilt er að nota ómönnuð loftför (dróna) innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Undanskilið banninu er leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar.
- Kvikmyndataka, ljósmyndun og viðburðir skulu ekki trufla dýralíf innan náttúruvættisins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka, ljósmyndun eða viðburðir sem geta haft áhrif á náttúru svæðisins og upplifun gesta eru háðir leyfi Umhverfisstofnunar, sem getur sett skilyrði þegar slík leyfi eru veitt.
- Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð tímabundið á viðkvæmum svæðum þar sem hætta er á jarðvegsrofi og gróðurskemmdum.
- Rekstur hesta er ekki leyfður innan náttúruvættisins, en ríðandi mönnum er heimil för um hefðbundnar leiðir innan þess.
- Hjólreiðar eru heimilar á merktum hjólaleiðum og akvegum
- Gæludýr skulu höfð í taumi
Frekari upplýsingar um sérstakar reglur um umferð og dvöl við Skógafoss má finna í stjórnunar- og verndaráætlun.