Starfsréttindi

 

Einungis þeim sem hlotið hafa vottun skv. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir er heimilt að annast ýmis verkefni varðandi búnað sem inniheldur F-gös. Mismunandi gerðir vottunar eru til eftir því um hvers kyns búnað/vinnu er að ræða. Sumar gerðir vottunar er ekki hægt að sækja sér hérlendis enn sem komið er en vottun sem veitt hefur verið í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins telst jafngild hérlendri vottun.

Kröfur um þekkingu og færni

Kröfur um þekkingu og færni sem liggja til grundvallar mismunandi gerðum vottunar koma fram í reglugerðum ESB sem hér segir:

 1. Kælikerfi, loftræstibúnaður, varmadælur o.fl.: Að því er varðar fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað, og kælieiningar í kælibifreiðum og kælivögnum sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019, eru kröfurnar settar fram í reglugerð (ESB) 2015/2067.
 2. Brunavarnarkerfi: Að því er varðar staðbundin brunavarnarkerfi og slökkvitæki sem innihalda tilteknar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019, eru kröfurnar settar fram í reglugerð (EB) nr. 304/2008.
 3. Rofbúnaður: Að því er varðar rafknúinn rofbúnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019, eru kröfurnar settar fram í reglugerð (ESB) 2015/2066.
 4. Leysar: Að því er varðar endurheimt tiltekinna leysa sem í eru flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, sbr. 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019, eru kröfurnar settar fram í reglugerð (EB) 306/2008.
 5. Loftkæling í ökutækjum: Að því er varðar endurheimt flúoraðra gróðurhúsalofttegunda úr loftræstibúnaði í vélknúnum ökutækjum, sbr. 5. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019, eru kröfurnar settar fram í reglugerð (EB) 307/2008.

Vottun

Umhverfisstofnun er tilnefnd vottunarstofa og gefur út skírteini um vottun til handa þeim sem um það sækja og staðist hafa viðeigandi mat hjá hérlendum matsaðila. Sækja skal um vottun innan tveggja ára frá því að hafa staðist mat. Hafi starfsmaður ekki sótt um vottun innan tveggja ára skal hann gangast undir mat að nýju til að hljóta vottun.


Þeir sem staðist hafa mat geta sótt um vottun með því að senda Umhverfisstofnun tölvupóst á póstfangið ust@ust.is þar sem fram kemur a.m.k. eftirfarandi:

 • Fullt nafn umsækjanda
 • Kennitala umsækjanda
 • Um hvaða gerð vottunar er sótt
 • Hvenær umsækjandi stóðst mat

Vottun sem veitt er hér á landi gildir í fimm ár frá útgáfudegi skírteinis. Til að fá vottun endurnýjaða að fimm árum liðnum skal gangast undir endurmat hjá matsaðila. Sé gildistími fyrri vottunar ekki liðinn, eða ekki lengra liðið en eitt ár frá því að vottun starfsmanns féll úr gildi þegar hann sækir um endurvottun þarf hann einungis að undirgangast bóklegan hluta matsins. Standist hann það mat má framlengja gildistímann um fimm ár án þess að meta verklega þætti. Sé lengra liðið en ár frá því að vottun starfsmanns féll úr gildi skal hann undir­gangast fullt mat.

Mat

Sem fyrr segir er ekki enn hægt að sækja sér allar gerðir vottunar hér á landi en Tækniskólinn og IÐAN fræðslusetur eru tilnefndir matsaðilar fyrir kröfur hvað varðar:

 • fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað, og kælieiningar í kælibifreiðum og kælivögnum sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019
 • endurheimt flúoraðra gróðurhúsalofttegunda úr loftræstibúnaði í vélknúnum ökutækjum sbr. 5. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1066/2019.

Upplýsingar um námskeið og próf til vottunar skal nálgast hjá Tækniskólanum eða IÐUNNI.