Vatnsfjörður, Vesturbyggð

Afhverju er Vatnsfjörður friðlýstur?

Vatnsfjörður var friðlýstur árið 1975. Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar.

Hvar er Vatnsfjörður?

Norður úr Breiðafirði ganga margir firðir og er Vatnsfjörður vestastur þeirra. Að honum liggja Barðaströnd að vestan og Hjarðarnes að austan. Barðaströnd er fremur þéttbýl en sveitirnar norðan og austan Vatnsfjarðar eru að mestu komnar í eyði. Friðlandið er í landi höfuðbólsins Brjánslækjar og eyðijarða sem liggja undir því. Mörk friðlandsins eru við Þverá að vestan, síðan er í grófum dráttum fylgt vatnaskilum um Hornatær og Dynjandisheiði norður í Glámu. Þaðan suður á Þingmannaheiði og suðvestur í Hörgsnes sem markar fjarðarmynnið að austan.

Friðlandið er alls um 20.000 ha. Um fjórir fimmtu hlutar þess eru grýtt og gróðurlítið hálendi en láglendið að mestu vaxið kjarri.

Sumarfagurt og veðursælt er í Vatnsfirði og þaðan er tilvalið að skoða Vestfirði. Um eina og hálfa klukkustund tekur að aka að Látrabjargi, í Selárdal og á Ísafjörð, hálfrar stundar akstur er að Dynjanda og einnar stundar sigling er með Baldri út í Flatey

Áhugavert á svæðinu

Dýralíf

Eins og annars staðar við Breiðafjörð er útfiri mikið og í fjörunni má finna úrval þörunga ásamt fjölda smádýra.

Dýralíf í Vatnsfirði er nokkuð fjölbreytt, þótt fjöldi einstaklinga sé sjaldnast mikill. Ein tegund sker sig þó úr hvað það varðar. Þeir sem dveljast þar á lognkyrrum miðsumardegi mega búast við að mýið geri sér dælt við þá og er vissara að hafa flugnanet við hendina. Ekki má gleyma geitungunum sem þar hafa numið land. Þeir geta launað fyrir sig sé þeim misboðið.

Um tuttugu tegundir fugla halda sig í friðlandinu að staðaldri. Mikið er af æðarfugli á firðinum og straumönd fram eftir sumri en miðsumars verður lómurinn einkennisfugl svæðisins, enda hávær. Örn og fálki eru oft á ferðinni en verpa sjaldan í friðlandinu. Nokkuð er um hagamýs, ref og mink en auðveldara er að koma auga á selina sem gjarnan flatmaga á skerjunum við Hörgsnesið. Lax gengur í Vatnsdalsá og silungur er í Vatnsdalsvatni.

Gróðurfar

Náttúrulegir reyniviðar og birkiskógar sem breiða úr sér frá flæðarmáli og langt uppá heiðar er einkenni Vatnsfjarðar. Skógurinn ásamt víðáttumiklum leirum eru búsvæði fjölskrúðugs lífríkis.. Birkikjarr er mest áberandi og sumstaðar er nokkuð hávaxinn reyniviður og víðir er til mikillar prýði. Á þessum slóðum er mikið blágresi og einir og burknar algengari en víðast á Barðaströnd. Þá fyrirfinnst mikið af lyngi, sérstaklega aðalbláberjalyngi. Á urðarflákum hálendisins mynda skófir og mosar skemmtilegt litskrúð.

Jarðfræði

Berggrunnur svæðisins tilheyrir tertíeru blágrýtismynduninni og er líklega tíu til þrettán milljón ára. Landslag er mótað af ísaldarjöklum, dalir eru jökulsorfnir og hvalbök á víð og dreif sýna skriðstefnur. Yfir firðinum að vestan gnæfa tindar Hornatánna rúmlega sjöhundruð metra yfir sjávaramál. Hornatær hafa líklega staðið lengi sem jökulsker í ísaldarjöklinum því hásléttan á svæðinu er yfirleitt um fimmhundruð metra yfir sjávarmáli. Af öðrum jökulminjum má nefna hrygginn sem skilur vatnið frá fjarðarbotninum. Hann er ekki jökulruðningur, eins og kann að virðast við fyrstu sýn, heldur berghaft sem jökullinn hefur ekki megnað að sverfa. Berggangar setja nokkurn svip á svæðið og í grennd við þá er jarðhiti, sem m.a. er nýttur til að hita sundlaug.

Töluvert er um vötn og tjarnir á svæðinu og er Vatnsdalsvatn er þeirra stærst, um tveir ferkílómetrar.

Menningarminjar

Í Vatnsfirði var gerð fyrsta tilraunin til landnáms sem sögur fara af á Íslandi. Hrafna-Flóki hafði vetursetu í Vatnsfirði og gaf landinu nafn þegar hann fór í fyrstu fjallgönguna sem vitað er um hérlendis. Í Landnámu segir: "Vár var heldr kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum, því kölluðu þeir landit Ísland, sem það hefur síðan heitit." Heimamenn telja að hann hafi gengið á Lómfell sem er hæst nærliggjandi fjalla.

Í Hörgsnesi er Gíslahellir, blaut og óvistleg hola þar sem Gísli Súrsson á að hafa falist. Langibotn í Geirþjófsfirði, jörð Auðar konu Gísla, liggur að friðlandinu að norðvestan.

Um fjörðinn hafa löngum legið alfaraleiðir og fornar vörður á víð og dreif um fjöllin vitna um löngu týndar götur.

Brjánslækur var eitt af höfuðbólum Guðmundar Arasonar á Reykhólum. Eyðibýlin Þverá, Hella og Uppsalir fóru í eyði á fyrri hluta tuttugustu aldar, en Vatnsdalsbakkar löngu fyrr.

Á eyrinni innan við vatnið héldu Vestfirðingar þjóðhátíð í júlí 1974. Þar komu saman um tíu þúsund manns, eða mun fleiri en nú búa á Vestfjörðum.

Aðgengi

Umhverfisstofnun er með landvörð á svæðinu á sumrin. Hann veitir fræðslu um svæðið og skipuleggur gönguferðir.

Sumarhótel, bensínsala og tjaldsvæði með hreinlætisaðstöðu er í Flókalundi. Þar er einnig orlofsbyggð og sundlaug og við orlofsbyggðina eru ruslagámar. Heitt vatn úr borholu skammt frá Flókalundi rennur í poll í fjörunni. Þar er engin snyrtiaðstaða en gott er að hvílast í pollinum eftir erfiðan göngudag. Við Þverá er fiskeldisstöð. Þar eru stundum seld veiðileyfi í eldistjarnir. Veiðileyfi í Vatnsdalsá og Vatnsdalsvatn eru seld í Flókalundi og á Brjánslæk.

Verum börnum okkar góð fyrirmynd og göngum vel um landið. Ökum ekki utan vega og merktra slóða. Spillum ekki gróðri, dýralífi og jarðmyndunum. Kveikjum ekki elda og förum varlega með heitt vatn.

Gönguleiðir

Hörgsnes

Þar er Gíslahellir og sérkennilegir klettar með ótal holum og skútum. Hörgurinn er götóttur klettastapi. Stutt er í fallega fjöru. Þar úti fyrir má oft sjá seli í sólbaði.

Stikuð gönguleið, hálf til ein klukkustund. Hækkun um fimmtíu metra.

Smiðjutóftin

Um tvöhundruð metra ofan þjóðvegar, rétt vestan Þingmannaár er gömul tóft, merkt með gulu priki svo sem títt er um fornminjar. Í tóftinnni eru leifar af viðarkolum. Hún er eldforn og er sagt að hér hafi staðið smiðja Gests Oddleifssonar hins spaka, en það er þó ólíklegt. Í það minnsta hafa honum þá verið frátafasamar smíðarnar því tuttugu kílómetrar eru út að Haga þar sem Gestur bjó.

Þingmanná

Skemmtilegt árgil með fallegum fossum, stórum og smáum. Vel má ganga bak við einn þeirra, enda var hann notaður við gerð kvikmyndanna "Útlagans" og "Nonna og Manna". Í gilinu má sjá enda á berggangi. Þar hefur átt sér stað kvikuhlaup, líkt og gerðist við Kröflu í kringum 1980. Slík kvikuhlaup eiga sér stað á að minnsta kosti eins kílómetra dýpi svo drjúgt hafa jöklar skafið Þingmannadal.

Stikuð einnar klukkustundar gönguleið. Hækkun tvöhundruð metrar.

Vatnsdalur

Fjöllin og skógurinn, vatnið og áin skapa fallega umgjörð um þægilegar gönguleiðir báðum megin í Vatnsdal. Á Lambagilseyrum, austan vatns er birkið með því hæsta sem gerist á Vestfjörðum. Í dalbotninum eru nokkrir snotrir fossar.

Athugið að Vatnsdalsá og Útnorðursár, sem koma niður í dalbotninn vestanverðan eru oftast erfiðar yfirferðar og geta verið hættulegar.

Stikuð tveggja klukkustunda gönguleið að Lambagili. Engin hækkun. Aðrar leiðir að eigin vali.

Smalahellan

Innarlega í dalnum vestanverðum er Smalahellan, gróðurlaus blettur þar sem uppsprettuvatn bunar niður hallandi klöpp. Sagan segir að enginn teldist hæfur sem smali í Vatnsdal nema sá hinn sami gæti hlaupið yfir helluna, en það er öllum ófært sakir hálku og bratta.

Helluvatn

Stöðuvatn vestan og ofan við hótel Flókalund. Stutt fjallganga sem skapar möguleika á að skoða svæðið frá öðru sjónarhorni með lítilli fyrirhöfn. Gott útsýni yfir hótel og orlofsbyggð.
Stikuð tveggja klukkustunda gönguleið að Helluvatni. Hækkun þrjúhundruð metrar

Pennugil

Hrikalegt gljúfur með skemmtilegum bergmyndunum. Í gilinu er volgra sem vegagerðarmenn nýttu til baða.

Stikuð hálfrar klukkustundar gönguleið. Hækkun um fimmtíu metrar.

Lómfell

Fyrsta fjall sem klifið var á Íslandi og þar var landinu gefið nafn sitt. Gott útsýni um Breiðafjörð og sunnanvert Vestfjarðahálendið. Auðnin og víðáttan eru skemmtileg tilbreyting frá algrónu láglendi milli brattra fjalla.

Merkt tveggja til þriggja klukkustunda gönguleið. Hækkun þrjúhundruð og fimmtíu metrar.

Surtarbrandsgil

Gilið er ekki innan friðlandsins en það nýtur sérstakrar friðunar sem náttúruvætti. Þar er óheimilt að raska eða fjarlægja nokkurn hlut en hægt er að fá leyfi til umferðar. Surtarbrandsgil er einn þekktasti fundarstaður steingervinga á landinu. Þar má sjá tólf milljón ára gróðurleifar frá tertíer. Meðal tegunda sem þar hafa verið algengar eru risafura, hlynur, magnolía og beyki.

Hálfrar annarar klukkustundar gönguleið. Hækkun um tvöhundruð metrar.

Flókatóftir

Fornar tóftir og friðlýstar eru rétt vestan bryggjunnar á Brjánslæk, kenndar við Hrafna-Flóka.

Fimm mínútna gönguleið.