Ástjörn, Hafnarfirði

Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. Aldar og er flórgoði  alfriðuð tegund og á válista.  Í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað. 

Ástjörn við Hafnarfjörð er í kvos vestan undir Ásfjalli. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum.
Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina. Tvö gömul tún eru norðan tjarnarinnar, annars vegar við Stekk og hins vegar við Ás.

Hér má finna útdrátt úr grein Gunnars Ólafssonar og Guðríðar Þorvarðardóttur ÁSTJÖRN Friðland og Fólkvangur sem birtist í Náttúrufræðingnum, 67. árg. 3.-4. hefti 1998. Greinin byggði á verkefni sem unnið var fyrir Náttúruverndarráð í tengslum við gerð fræðsluefnis um Ástjörn.

Stærð friðlandsins er 28,5 ha.

Aðgengi

Ástjörn er afar vinsælt svæði til útivistar. Göngustígur liggur umhverfis tjörnina. Gangandi fólki er heimil för um svæðið en á varptíma fugla á tímabilinu 1.  maí - 15. júlí er umferð um svæðið óheimil.