Umhverfistofnun - Logo

Einkunnir, Borgarbyggð

Einkunnir í Borgarbyggð voru friðlýstar sem fólkvangur árið 2006. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir og votlendi í þágu útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu fyrir almenning. Með friðlýsingunni er m.a. stuðlað að varðveislu jarðfræðilegrar fjölbreytni.

Einkunnir eru klettaborgir umkringdar mýrlendi en þar er einnig stöðuvatn, tjörn og lækir. Skógrækt hefur lengi verið stunduð á svæðinu og er skógur þar nú vöxtulegur.

Nafn svæðisins, Einkunnir, kemur fyrir í Egilssögu. Nálægð við þéttbýli og gott aðgengi gerir svæðið ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu.

Almenningi er heimil för um svæðið sé góðrar umgengni gætt. Óheimilt er að hrófla við gróðri og jarðmyndunum eða trufla dýralíf. Búfjárbeit og meðferð skotvopna er bönnuð.

Fólkvangar eru friðlýstir að frumkvæði sveitarfélaga. Þriggja manna nefnd skipuð af bæjarstjórn Borgarbyggðar fer með umsjón svæðisins samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun. Gróðursetning trjáa og grisjun skógarins er í umsjón Skógræktarfélags Borgarfjarðar.

Stærð fólkvangsins er 265,9 ha.

Yfirlitsteikning af friðlýsta svæðinu