Gönguleiðir

Í Hornstrandafriðlandinu eru margar og fjölbreyttar gönguleiðir. Hornstrandir eru afskekktar og því mikilvægt að vera vel undirbúinn fyrir ferð um svæðið. Hér er að finna nokkrar leiðarlýsingar.

Hesteyri - Sæból í Aðalvík, um Sléttuheiði (12 km 5 klst.)

Gengið er áleiðis út Hesteyrarfjörð eftir göngustíg sem leiðir uppá Nóngilsfjall. Þaðan er gengin Sléttuheiði (280m). Göngustígur er að hluta til góður og vel varðaður. Rétt ofan við Sléttu þarf að þvera sléttuá. Þegar gengið er niður að prestsetrinu á Stað í Aðalvík verður erfiðara að greina göngustíginn. Leiðin niður að Stað getur verið blaut og þarf því að fara varlega. Með viðkomu á Sléttu lengist gangan um 1 – 2 klst.

Sæból – Darri - Sæból (7 km 3 klst.)

Frá tjaldsvæðinu á Sæbóli er gengið að Traðará og fylgt götu austan við ánna upp í Garðadal. Þar er áin þveruð og stíg fylgt upp á fjallið. Eftir að komið er upp á fjallið tekur vegur við sem leiðir gesti alla leið upp að herstöðinni á Darranum (490 m). Sama leið er gengin til baka.

Hesteyri - Látrar í Aðalvík, um Hesteyrarskarð (10km 4 klst.)

 Leiðin liggur upp frá Hesteyri og í Hesteyrarskarð (270m). Genginn er gamall vegur í skarð. Úr skarðinu er gata (nokkuð greinileg) sem liggur nokkuð frá vörðunum. Þegar að komið er niður Stakkadal þarf að vaða Stakkadalsós. Botn óssins er að mestu sandur. Eftir að ósinn hefur verið þveraður er genginn stígur um sandinn og yfir að Látrum.


Hesteyrarskarð (270m) horft yfir að Látrum.

 

Látrar – Straumnesfjall – Rekavík bak Látur – Látrar (22 km 6 – 8 klst.)

Frá Látrum og upp á Straumnesfjall liggur vegur. Liggur hann inn víkina og upp á Látrafjallið innanvert. Er veginum fylgt alla leið að herstöðinni uppi á fjallinu. Þegar haldið er til baka er gengið niður í Öldudalinn, vörðubrot hér og þar en engin gata. Ef halda á niður að Rekavíkurbænum, þá þarf að ganga inn víkina til baka við Rekavíkurvatn. Betra er að halda hæð, ofan við hamrabelti í ca 60-80 metra hæð og ganga þar inn að Grasadalsá. Handan árinnar er vegslóði sem genginn er til baka að Látrum.

Látrar í Aðalvík – Fljótavík, um Tunguheiði (10km 4 - 5 klst.)

Frá Látrum er genginn vegurinn inn víkina þar til hann beygir til vesturs ofan Rekavíkur. Austur út frá veginum tekur við vörðuð gönguleið sem leiðir göngumenn fram á brúnir Tungudals (480m). Niður tungudalinn liggur brattur stígur. Farið er framhjá Tungubænum og gengið nokkuð inn víkina að Fljótavatni. Við Fljótavatn er merkt vað, til móts við Langanes. Athugið að mjög misjafnt er hversu hátt vaðið er, allt frá kálfum og upp í nára.

 

Fljótavík – Kjaransvík, um Þorleifsskarð (15 km 7- 8 klst.)

Leiðin liggur um mýrlendi meðfram Fljótavatni. Gengið er upp hlíðar Þorleifsdals og þaðan upp brattar hlíðar Þorleifsskarðs (360m). Gönguleiðin úr skarðinu niður í Almenninga er í gegnum stórgrýti. Farið er um Almenningaskarð (430m) og þaðan í Kjaransvík. Leiðin er seinfarin og erfið yfirferðar. Hluti leiðarinnar er stikaður, en engu að síður er hún villugjörn í þoku.

Hesteyri - Kjaransvík - Hlöðuvík, um Kjaransvíkurskarð (14 km 6-7 klst.)

Frá Hesteyri er gengin vörðuð leið inn Hesteyrarbrúnir og að Kjaransvíkurskarði (426m). Niður úr skarðinu er áfram vörðuð leið niður í fjöru Kjaransvíkur. Þar er Kjaransvíkurá þveruð og haldið áfram í fjörunni fyrir Álfsfell og yfir í Hlöðuvík.

Hesteyri séð frá Hesteyrarbrúnum

Hlöðuvík - Hornvík, um Atlaskarð (10 km 4 – 5 klst.)

Frá Hlöðuvík liggur gönguleiðin upp innanverðan Skálakamb (350m). Bratt er upp Skálakambinn en gatan er góð. Varasamt getur þó verið að ganga þar um eftir mikla ofankomu og leysingar. Frá Skálakambi er gengin vörðuð leið ofan Hælavíkur og yfir í Atlaskarð (327m). Niður í Rekavík bak Höfn er greinileg gata alveg niður í fjöru, þar sem Rekavíkuráin er þveruð. Haldið er áfram inn Hornvíkina eftir greinilegri götu sem leiðir fólk niður í fjöru, um Tröllakamb og inn að Höfn.