Umhverfistofnun - Logo

Geitland, Borgarbyggð

Um friðlýsinguna

Geitland var friðlýst árið 1988. Svæðið einkennist af víðáttumiklu hraun- og sandflæmi sem á upptök sín í gígaþyrpingu í rótum Langjökuls. Landið er víða vel gróið. Þar hafa fundist stórir hellar.

Stærð friðlandsins er 12.281,7 ha.

Svæði í hættu

Svæðið er á appelsínugula listanum

Auglýsing nr. 283/1988 í Stjórnartíðindum B.

Styrkleikar

Svæðið er fallegt með fjölbreyttu landslagi og gróðurfari. Þó nokkur umferð er um friðlandið. Megnið af friðlandinu ver sig sjálft vegna jökuláa, en göngufólk getur þó gengið um svæðið. Landvörður á Vesturlandi hefur eftirlit með svæðinu yfir sumartímann. Vegna olíumengunar sem varð við Jaka hefur jarðvegur verið fjarlægður af svæðinu og settur skeljasandur í staðinn. Sett voru upp skilti sem banna umferð á slóða sem myndaðist eftir að vatnsbílar sóttu vatn í Geitá til að bera á vegi á svæðinu. Sumarið 2012 fjarlægði Vegagerðin tvö ræsi sem lágu innan friðlandsins, að beiðni Umhverfisstofnunar. og Að auki var mikið af rusli fjarlægt.

Veikleikar

Takmarkaðir innviðir eru til staðar til að taka á móti ferðafólki. Svæðið er heldur úr alfaraleið og því torvelt að hafa eftirlit með friðlandinu.

Ógnir

 • Enn er mikið álag á svæðinu við Jaka og er aðkoman þar alls ekki góð. 
 • Slæm umgengni einkennir svæðið. 
 • Mikið af haglaskotshylkjum finnst á svæðinu þrátt fyrir bann um veiðar í friðlandinu. 
 • Vart hefur verið við utanvegaakstur.
 • Enn er þó nokkuð um rusl innan friðlandsins, t.d. stórir járnbitar, plötur og timburstaurar. 
 • Lúpína er að gera vart við sig á svæðinu. 

Tækifæri

 • Gerð verndaráætlunar. 
 • Stikun gönguleiða. 
 • Taka þarf allt svæðið til gagngerrar endurskoðunar og bæta þarf umgengni. 
 • Samráð og samvinna þarf að vera á milli þeirra sem svæðið nýta, Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins. Ganga þyrfti til samninga við þá sem reka ferðaþjónstu á svæðinu. 
 • Fjarlægja þarf ónýtar girðingar í friðlandinu. 
 • Fjarlægja þarf lúpínu sem er rétt utan við friðlandið. 
 • Efla þarf fræðslu um svæðið.

Myndin sýnir sandflæmi með fjallgarða í fjarska