Bakkatjörn, Seltjarnarnesi

Bakkatjörn

Bakkatjörn var friðlýst árið 2000.  Bakkatjörn er ísölt tjörn og hefur svo verið frá um 1960 þegar lokað var fyrir leirvog sem þar var. Lægð kölluð Rásin tengdi áður Bakkatjörn og Seftjörn en sú síðarnefnda er nú horfin undir byggð.

Stærð friðlandsins er 14,9 ha.

Umhverfi Bakkatjarnar

Umhverfis Bakkatjörn er graslendi í sendnum jarðvegi og votlendi. Þær tegundir sem finna má innan friðlandsins eru m.a. melgresi, skriðlíngresi, tágamura, lokasjóður, mýrasauðlaukur, njóli, túnvingull, vallarsveifgras, klóelfting, mýrastör, knjáliðagras, lófótur, hálmgresi, gulstör, hrafnaklukka, vætuskúfur (vætusef), baldursbrá, fjöruarfi, fjörukál, hjartaarfi, vallhumall, snarrótarpunktur, túnvingull, gullvöndur, engjavöndur, hnúskakrækill, umfeðmingur, mýrasóley, augnfró, túnsúra, skarifífill, brennisóley, maríustakkur, gleym-mér-ei, hvítsmári, vallhæra og skriðlíngresi. Í blautustu lænunum vaxa lófótur, gulstör, mýrastör ásamt hrafnafífu, klófífu, hófsóley, skriðlíngresi, vætusefi, mýrasauðlauk og knjáliðagrasi.

Lífríki

Hávella í vetrarbúningi

Skráðum fuglategundum á Seltjarnarnesi fjölgaði um 28% frá 1957-1992. Í könnun sem gerð var árið1986 kom í ljós að kría var langalgengasti fugl svæðisins eða um 900 pör og þar af voru um 200  norðan og austan við Bakkatjörn. Við tilurð Bakkatjarnar upp úr 1960 hófu ýmsar andategundir að venja komu sína út á Nes og tóku síðar að verpa þar í kjölfar breyttra fæðuskilyrða. Hávella nýtti sér einnig breytt landslag en tegundin hafði verið algengur vetrargestur á sjónum umhverfis Nesið. Óðinshani sést frá miðjum maí og fram í seinnihluta ágúst en í júlí og ágúst skipta fuglarnir hundruðum á Bakkatjörn og nágrenni. Fæðusvæði fugla er í Bakkatjörn og við hana eru flóðsetur og hvíldarstaðir. Talið er að við breytinguna þegar voginum var breytt í tjörn hafi orðið miklar breytingar á smádýralífi, enda er þar nú tjörn í stað leiru.

Á myndinni sést hávella í vetrarbúning sínum.

Aðgengi

Almenningi er heimil för um svæðið sé góðrar umgengni gætt. Á varptíma fugla, frá 1.maí - 1.júlí er umferð um friðlandið næst Bakkatjörn takmörkuð. Hundar eru óheimilir í friðlandinu.