Gönguleiðir

Gönguleiðir

Um Mývatnssveit liggja fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir. Hér er gefin stutt lýsing á þeim leiðum sem hafa verið merktar.

Vindbelgjarfjall

Leiðin hefst skammt austan við veginn að bænum Vagnbrekku,  um hálftíma að fjallinu annað eins upp á fjallið sem er úr móbergi og nær um 529 m hæð yfir sjó. Slóðin er nokkuð brött á köflum en hvergi  klifur. Leiðin er fær fyrir flesta og frábært útsýni er yfir sveitina af fjallinu.

Skútustaðagígar

Leiðin liggur umhverfis Stakhólstjörn á Skútustöðum og tekur gangan um eina klukkustund. Einnig er styttri hringleið inn á svæðið vestanvert og tekur 20-30 mín. að ganga hana. Þetta er auðveld ganga um gervigíga og í námunda við fjölbreytt fuglalíf. Mikilvægt er að fylgja göngustígum því að gróður er mjög viðkvæmur.

Kálfastrandarland

Þetta er hringleið sem hefst skammt innan við hliðið á heimreiðinni að Kálfaströnd og liggur út í Klasa, andspænis Höfða, og síðan til baka að veginum. Þetta er auðveld ganga um sérkennilegar hraunmyndanir og landslag. Oft má sjá smásilung í vogunum.

Dimmuborgir

Í Borgunum hafa verið merktar nokkrar gönguleiðir með mismunandi litum eru kort á öllum stígamótum sem sýna staðsetningu, afstöðu, lengd og áætlaðan tíma sem það tekur að ganga stígana.
  • Litli hringur liggur næst bílastæðinu og tekur 10-15 mín. að ganga hann.
  • Stóri hringur nær lengra inn á svæðið og tekur um hálftíma að fara hann.
  • Kirkjuhringurinn liggur að kirkjunni sem er enn lengra inn í hrauninu. Það tekur um klukkutíma að ganga hringinn.
  • Mellandahringurinn er um það bil þrjátíu mínútna aukakrókur sem auðveldar fólki að gera sér grein fyrir þeirri hættu sem steðjaði/steðjar að Dimmuborgum vegna sandfoks og þeirri gífurlegu vinnu sem landgræðslan hefur lagt í svæðið.
  • Krókastígurinn er ögn erfiðari en fjölbreytt gönguleið sem tekum um 40 mínútur að ganga.

Allar þessar leiðir eru greiðfærar nema Krókastígurinn sem er ögn torfær á köflum. 

Stóragjá - Grjótagjá - Hverfjall - Dimmuborgir

Leiðin liggur frá vegamótum þjóðvegarins austan við vatnið og tekur gangan 2½ - 4 tíma. Milli Stórugjár og Grjótagjár er auðveld ganga (30-40 mín). Frá Grjótagjá að Hverfjalli (Hverfelli) er auðveld leið ef farið er með gát. Stígur liggur á Hverfjall (Hverfell) að norðvestan, aflíðandi og að sunnan er brött og fremur erfið slóð. Frá Hverfjalli (Hverfelli) að bílastæði við Dimmuborgir er 30-50 mín. ganga.

Grjótagjá - Jarðböðin - Hverfjall/Hverfell

Leiðin klofnar úr Grjótagjá –Hverfjalls (Hverfells) leiðinni 50m. austan við Grjótagjá. Auðvelt er að ganga leiðina. Tekur það 25-35 mínútur að ganga frá Grjótagjá að Jarðböðunum. Skömmu áður (u.þ.b.250m) en komið er að Jarðböðunum er hægt að fylgja merktri slóð að Hverfjalli ( Hverfelli). Sú leið er auðveld yfirferðar og tekur 45-60 mín að ganga.

Norðurstrandarhringur

Norðurstrandarhringur er hringleið sem tekur um 2-3½ klst. að ganga. Leiðin liggur frá þjóðveginum vestast í byggðinni í Reykjahlíð og eftir vatnsbakkanum. Vel má sjá áhrif vatnsins á gróðurinn í hrauninu næst bakkanum. Þegar komið er vestur á móts við Slútnes er gengið þvert yfir hraunið að Fagraneshólum. Einnig hægt að hefja ferðina þar ef menn vilja. Frá Fagraneshólum er gengið til Reykjahlíðar. Þetta er létt gönguleið og þar er talsvert um fuglalíf.

Námafjall

Hverasvæðið austan við Námafjall, er eitt mesta brennisteinshverasvæði landsins. Þaðan er stutt en allbrött slóð á fjallið sem er í 485 m hæð yfir sjó. Hægt er að ganga eftir brún fjallsins að Námaskarði en þar liggur slóðin niður að þjóðveginum og aftur inn á hverasvæðið. Á hverasvæðinu verður að gæta fyllstu varúðar, jarðvegur getur látið undan þunga gangandi manna og hafa menn brennt sig illa.
Leiðin er frekar auðveld og greiðfær ef þurrt er í veðri, en getur verið hál og varasöm í votviðri.

Leirhnjúkur

Frá bílastæði nálægt Leirhnjúki liggur greiðfær stígur að hnjúknum og tekur 15-20 mín. að ganga að honum. Leiðin liggur síðan um hverasvæði, inn í gíga frá Kröflueldum og upp á háhnjúkinn. Þaðan er farið örstutt til baka, suður og síðan austur fyrir hnjúkinn þar til komið er aftur inn á leiðina að bílastæðinu. Á þessari leið má fá góða mynd af umbrotum Kröflueldanna. Alls tekur ferðin eina til eina og hálfa klukkustund. Leiðin er greiðfær ef þurrt er í veðri, en getur verið hál og varasöm í votviðri.

Hófur

Frá hverasvæðinu í Leirhnjúki liggur gönguleið að gígnum Hóf. Hófur er formfagur eldgígur frá Mývatnseldum. Gangan tekur tæpan klukkutíma. Gangið alls ekki upp í né utan á gígnum, gjallið molnar við minnsta átroðning.

Kröfluleiðin (Reykjahlíð - Hlíðarfjall - Leirhnjúkur)

Leiðin liggur frá hringleiðinni um Leirhnjúk og um gíga frá Mývatnseldum. Þaðan er farið að Hlíðarfjalli, niður með Eldánni og síðan niður að sundlauginni í Reykjahlíð eða að tjaldsvæðinu Hlíð. Gangan tekur 3-4 klst. og er leiðin greiðfær.

Hlíðarfjall

Brött, merkt leið, af Kröfluleiðinni er á fjallið og tekur gangan 50-60 mín. hvora leið. Af fjallinu, sem nær 771 m hæð, er frábært útsýni inn til jökla og út á sjó.

Dalfjallsleið

Leiðin liggur frá leiðinni um Leirhnjúk. Leiðin liggur eftir Dalfjalli endilöngu með miklu útsýni til allra átta. Hún endar við þjóðveginn í Námaskarði. Leiðin er fjölbreytileg og gefa eldstöðvar og misgengi í Dalfjalli góða innsýn í landgliðnunina. Leiðin er þó nokkuð erfið og það tekur 3-4,5 tíma að ganga hana.

Víti við Kröflu

Stutt hringleið liggur umhverfis sprengigíginn Víti, sem myndaðist árið 1724, að hverasvæði austan gígsins. Leiðin er greiðfær ef þurrt er í veðri, en getur verið hál og varasöm í votviðri. Gangan tekur um klukkutíma.