Tríklósan

Tríklósan (e. triclosan) er efni sem hefur bakteríudrepandi virkni og telst örverueyðandi (e. antimicrobial). Áður fyrr var það mikið notað í snyrtivörur og hreinlætisvörur sem rotvarnarefni og í sótthreinsandi tilgangi en í dag er leyfð notkun þess mjög takmörkuð og því hefur notkunin minnkað til muna. Efnið er talið geta valdið því að bakteríur verði ónæmar fyrir sýklalyfjum.

Í hvaða vörum er líklegt að finna það?

 • Snyrtivörum
 • Hreinlætisvörum (t.d. tannkremum, svitalyktareyðum, munnskolum og sápum)
 • Hreinsiefnum
 • Fatnaði sem er merktur „antibacterial“

Hvernig kemst það inn í líkamann?

 • Með upptöku í gegnum húð
 • Í gegnum meltingarveginn

Hvernig getur það haft áhrif á heilsu?

 • Ertir húð og augu
 • Grunað um að hafa áhrif á innkirtlastarfsemi líkamans
 • Auknar líkur á ónæmi baktería fyrir efnum svo sem sýklalyfjum

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efninu?

 • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
 • Forðast tannkrem og svitalyktareyða sem innihalda tríklósan, sérstaklega þungaðar konur.
 • Forðast að kaupa föt sem eru merkt „antibacterial“.

Nánari umfjöllun um tríklósan

Tríklósan (e. triclosan) er hættuflokkað sem húðertandi, augnertandi og mjög eitrað lífi í vatni með langvarandi áhrifum. Að auki liggur efnið undir mati hjá Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) vegna gruns um innkirtlatruflandi eiginleika og mats á hvort það teljist til PBT-efna (þrávirk efni sem safnast upp í lífverum og eru eitruð). Það sem veldur helst áhyggjum er að það er talið að bakteríur geti orðið ónæmar fyrir efninu og þar af leiðandi verður aukning á fjölónæmisbakteríum sem verða einnig ónæmar fyrir fleiri efnum, t.d. sýklalyfjum. Það þýðir að sýklalyf hætta að virka gegn bakteríum, sem veldur sýkingum og það getur leitt til þess að smávægilegar sýkingar sem við getum í dag unnið á með hjálp sýklalyfja valdi alvarlegum veikindum.

Eftirfarandi takmarkanir gilda um tríklósan í efnavörum:

- Bannað sem virkt efni í sæfivörur og meðhöndlaðar vörur (reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur; Umhverfisstofnun)

- Bannað sem rotvarnarefni í snyrtivörur að undanskildum eftirfarandi takmörkunum:

 • Hámark 0,3% (massahlutfall) sem rotvarnarefni í tannkremum, handsápum, sturtusápum, svitalyktareyðum, andlitspúðrum og -hyljurum og naglavörum til að hreinsa neglur fyrir ásetningu gervinagla;
 • Hámark 0,2% (massahlutfall) sem rotvarnarefni í munnskoli,

sbr. reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir færslu 25 í V. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1223/2009 með sama heiti.

Notkun efnisins hefur farið minnkandi innan EES vegna stífrar takmörkunar en þær eru m.a. byggðar á áliti Vísindanefndar um öryggi neytenda (e. SCCS) sem telur að efnið hafi ekki áhrif á fólk þegar það er undir ákveðnum styrkleika og einungis leyft í ákveðnum vörum.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Almennt um tríklósan á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Skýrsla um tríklósan og önnur rotvarnarefni í snyrtivörum á sænsku á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (Kemikalieinspektionen).

Skýrsla á ensku um álit Vísindanefndar um öryggi neytenda (e. SCCS) um tríklósan.

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært  16. janúar 2024.