Kjölfestuvatn

Til að koma í veg fyrir að framandi lífverur og meinvaldar, svo sem veirur og sýklar, berist með kjölfestuvatni til hafsvæða og stranda umhverfis Ísland hafa verið settar takmarkanir á losun þess innan íslenskrar mengunarlögsögu. 

Meginreglan er sú að losun kjölfestuvatns er óheimil innan mengunarlögsögunnar. Losun kjölfestuvatns er þó heimil eftir að það hefur verið meðhöndlað í samræmi við kröfur í reglugerð nr. 515/2010 um kjölfestuvatn, þ.e. meðhöndlað samkvæmt staðli D1 (útskolun) eða D2 (hreinsun) í OSPAR-leiðbeiningum og/eða BWM-samningi (alþjóðasamningi um stjórnun og meðhöndlun á kjölfestuvatni skipa og botnfalli í því).

Skipstjóra hlutaðeigandi skips er jafnframt heimilt að losa kjölfestuvatn utan 50 sjómílna frá landi að því tilskildu að dýpi sé meira en 200 metrar, ef aðstæður leyfa ekki losun kjölfestuvatns utan mengunarlögsögu vegna siglingaleiða, veðurs eða annarra aðstæðna á sjó. Skipstjóri hlutaðeigandi skips skal hafa samráð við varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands áður en kjölfestuvatn er losað innan mengunarlögsögu Íslands og fá heimild til undanþágu að uppfylltum framangreindum skilyrðum.

Skipstjóri hlutaðeigandi skips ber ábyrgð á því að losun kjölfestuvatns sé í samræmi við gildandi lög og reglur, að réttur búnaður sé fyrir hendi og að áhöfn hafi verið þjálfuð til þess að framkvæmd verði fumlaus. Skipstjóra ber að tilkynna alla losun kjölfestuvatns innan mengunarlögsögu Íslands til varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands.

Við losun á kjölfestuvatni skal gætt fyllsta öryggis og hafa til hliðsjónar OSPAR-leiðbeiningar og/eða IMO-leiðbeiningar þar að lútandi.

Skip skulu halda kjölfestudagbók og skal hún vera aðgengileg eftirlitsaðilum. Um borð í skipum skal vera kjölfestuáætlun. Umhverfisstofnun gefur út kjölfestudagbók fyrir íslensk skip og er hægt að nálgast eintak af henni í afgreiðslu stofnunarinnar.

Á vefsíðu IMO er að finna nánari upplýsingar um BWM samninginn

Á vefsíðu GloBallast má meðal annars finna leiðbeiningar IMO varðandi kjölfestuvatn og ýmsar upplýsingar tengdar kjölfestuvatni.