Verndarsvæðið

Sumarið 2020 voru Kerlingarfjöll friðlýst sem landslagsverndarsvæði. Markmið friðlýsingarinnar eru að vernda jarðminjar, landslag, óbyggðir og ásýnd svæðisins. Með friðlýsingunni er tryggt að ekki sé gengið á auðlindir verndarsvæðisins og að nýting innan þess spilli ekki jarðminjum, landslagi eða ásýnd. Annað markmið friðlýsingarinnar er að efla Kerlingarfjöll sem útivistarsvæði og stuðla að góðri umgengni og bættu aðgengi að svæðinu. 

Innan Kerlingarfjalla er óheimilt að valda spjöllum á landslagi og jarðminjum. Einkenni og sérkenni landslags Kerlingarfjalla, sem og svæðisins í heild, skal varðveita. Óheimilt er að hafa áhrif á lífríki sem tengist hverum og öðrum heitum uppsprettum. Einnig er óheimilt að hrófla við menningarminjum sem á svæðinu eru. Enn fremur eru allar framkvæmdir á verndarsvæðinu háðar leyfi Umhverfisstofnunar. 

Orkuvinnsla sem fellur undir lög nr. 48 frá 2011 (sjá Rammaáætlun) er óheimil innan verndarsvæðisins. Öll orkuvinnsla innan svæðisins er háð því að hún skuli vera sjálfbær og gangi ekki á orkuforða þeirra auðlinda sem nýttar eru, ásamt því að óheimilt er að flytja orku sem unnin er innan verndarsvæðisins til notkunar utan þess. 

Umhverfisstofnun fer með umsjón með verndarsvæðinu. Með Umhverfisstofnun starfar samstarfsnefnd um málefni Kerlingarfjalla, skipuð fulltrúum stofnunarinnar, Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Sérfræðingur svæðisins er með skrifstofu á Hellu og landvörður Umhverfisstofnunar er í fjöllunum yfir sumarið. 

Svæðaskipting verndarsvæðis og umgengnisreglur

Innan verndarsvæðis Kerlingarfjalla eru skilgreind tvö svæði með sérreglum. Svæði 1 nær til svæðisins í Ásgarði og nágrenni þess og ætlað er til uppbyggingar og innviða í tengslum við móttöku ferðamanna.  Fjögur svæði eru skilgreind sem svæði 2 – hverasvæði í Hverabotnum og Neðri- og Efri-Hveradölum ásamt svæði í kringum drangann Kerlingu. Svæði 2 nær utan um jarðminjar sem vernda þarf sérstaklega sökum viðkvæmni, sérstöðu svæðana eða af öryggisástæðum. Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um og fylgja þeim reglum sem innan þess gilda. Strangari umgengnisreglur eru á svæði 2 en annarsstaðr innan verndarsvæðisins. 

Á svæði 1 er aðeins heimilt að tjalda á merktum tjaldsvæðum.

Á svæði 2 er óheimilt að tjalda og gangandi vegfarendur skulu fylgja merktum stígum í hvívetna. 

Um allt verndarsvæðið, utan sérregla á svæðum 1 og 2, gildir að göngufólki er heimilt að tjalda við gönguleiðir, en þó í lágmarki 100 metra fjarlægð frá gönguleið. Hópur með fimm tjöld eða fleiri þarf leyfi Umhverfisstofnunar til tjöldunar. Ríðandi mönnum er aðeins heimil för um merktar reiðleiðar, vegi og slóða og hrossabeit er óheimil utan áningarhólfa. 

Umfe reiðhjóla er heimil á vegum eða slóðum, en ekki á stígum sem ætlaðir eru sem göngustígar. Óheimilt er að skilja eftir sorp innan verndarsvæðisins.