Umhverfistofnun - Logo

Samræmdir áhættuvísar

Á meðal markmiða reglugerðar nr. 677/2021 um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna er að vernda heilbrigði manna og umhverfi fyrir hugsanlegri áhættu sem stafar af meðferð plöntuverndarvara og að draga úr notkun plöntuverndarvara. Til þess að hægt sé að mæla árangur sem náðst hefur við að draga úr áhættu hafa verið útbúnir ákveðnir samræmdir áhættuvísar (e. harmonised risk indicators). Ríki Evrópska efnahagssvæðisins skulu reikna út þessa áhættuvísa og nota við áhættustjórnun í hverju landi fyrir sig. Einnig eru áhættuvísarnir notaðir til að meta sameiginlegan árangur og þróun á vettvangi ESB. Áhættuvísarnir eru tveir og byggir annar á magni virkra efna sem sett er á markað en hinn á fjölda markaðsleyfa vegna neyðarástands í plöntuvernd.

Samræmdur áhættuvísir 1 (HRI 1).

Samræmdur áhættuvísir 1 byggir á tölfræðilegum upplýsingum um magn virkra efna sem sett er á markað í plöntuverndarvörum samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1107/2009. Vísirinn mælir þróun í sölu á virkum efnum í plöntuverndarvörum samanborið við meðaltal frá árunum 2011-2013. Virkum efnum er skipt niður í fjóra yfirflokka. Hver flokkur hefur ákveðið hættuvægi sem nota skal þegar verið er að leggja saman magn virkra efna, sem sett er á markað, fyrir hvern flokk.

  • Yfirflokkur 1: Áhættulítil virk efni (hættuvægi 1) – efni sem vænta má að lítil áhætta stafi af samanborið við önnur virk efni.
  • Yfirflokkur 2: Virk efni sem falla ekki undir aðra flokka (hættuvægi 8).
  • Yfirflokkur 3: Virk efni sem ráðgert er að skipta út (hættuvægi 16). Eiginleikar þessara efna eru oft þess eðlis að vera t.d. þrávirk eða krabbameinsvaldandi, og stafar því meiri áhætta af þeim samanborið við önnur virk efni.
  • Yfirflokkur 4: Virk efni (hættuvægi 64) sem eru ekki lengur samþykkt til notkunar í plöntuverndarvörum á vettvangi ESB á þeim tíma sem útreikningur fer fram.
 

Mynd 1: Samræmdur áhættuvísir 1 (HRI 1) frá 2011-2020. Grunnlínan fyrir samræmdan áhættuvísi 1 er stillt á 100 og er jöfn og meðaltalsniðurstöður úr útreikningunum fyrir tímabilið 2011-2013.

Vakin er athygli á því að fyrir gildistöku reglugerðar (EB) nr. 1007/2009 hér á landi, sem var þann 1. janúar 2016, voru í gildi sér íslensk lög og reglur um eiturefni og hættuleg efni og því ekki sömu reglur í gildi um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara fyrir og eftir árið 2016. Tölfræðilegar upplýsingar um innflutning á virkum efnum eru hinsvegar til staðar fyrir árin 2011-2016 sem hægt er að nýta til útreikninga á samræmdum áhættuvísi 1.

Á mynd 1 má sjá að áhættuvísirinn er breytilegur eftir árum og liggja sveiflurnar milli ára einkum í því að verið er að flytja inn vörur í stórum sendingum, sem ætlaðar eru til sölu í fleiri en eitt ár. Þá geta einstaka virk efni verið stór hluti af þessum sveiflum eins og má sjá fyrir árin 2012 og 2015 þar sem mikið var flutt inn af virka efninu díklóbeníl. Díklóbeníl er þrávirkt efni og er notkun þess í plöntuverndarvörum nú alfarið bönnuð og ekki samþykkt á vettvangi ESB. Annað virkt efni sem útskýrir hátt gildi á tímabilinu er innflutningur á glýfosati. En frá 2017 fer áhættuvísirinn lækkandi og skýrist það að stærstum hluta af því að innflutningur á glýfosati dróst umstalsvert saman á tímabilinu 2018-2020. Niðurstöður útreikninga fyrir áhættuvísi 1 gefa til kynna að áhætta fyrir heilbrigði manna og umhverfi sem stafar af meðferð plöntuverndarvara á Íslandi hafi minnkað um 90% frá árinu 2011 til ársins 2020.

Stærstur hluti notkunar á plöntuverndarvörum í landbúnaði er til kominn vegna kartöfluræktunar þar sem illgresis- og sveppaeyðar hafa einna helst verið í notkun. Mest hefur þar verið notað af virku efnunum aklónífen í illgresiseyðum og flúasínam í sveppaeyðum. Þar sem vitað er að notkun plöntuverndarvara í landbúnaðarlandi við ræktun á kartöflum er töluverð og regluleg, sem getur leitt til aukinnar áhættu fyrir heilbrigði manna og umhverfið, er ástæða til að fylgjast vel með þróun um notkun virkra efna í þessari tilteknu ræktun.

Samræmdur áhættuvísir 2 (HRI 2).

Samræmdur áhættuvísir 2 byggir á upplýsingum um fjölda markaðsleyfa, vegna neyðarástands í plöntuvernd, sem veitt eru fyrir plöntuverndarvörum samkvæmt 53. gr. í reglugerð (EB) nr. 1107/2009. Áhættuvísir 2 er reiknaður út með því að margfalda fjölda markaðsleyfa, vegna neyðarástands í plöntuvernd, með skilgreindu hættuvægi fyrir hvern flokk af virkum efnum. Við útreikning á samræmdum áhættuvísi 2 er stuðst við skiptingu á virkum efnum í sömu fjóra yfirflokka og notaðir eru fyrir útreikning á áhættuvísi 1. Hver flokkur hefur einnig samskonar hættuvægi sem nota skal þegar verið er að reikna áhættuvísi 2.

Í ljósi þess að reglugerð (EB) nr. 1107/2009 var ekki innleidd hér á landi fyrr en árið 2015, með gildistöku 1. janúar 2016, voru engin markaðsleyfi vegna neyðarástands í plöntuvernd, skv. 53. gr. reglugerðarinnar, gefin út á tímabilinu 2011-2013. Grunnlínan fyrir samræmdan áhættuvísi 2 á að vera stillt á 100 og vera jöfn og meðaltalsniðurstöður úr útreikningunum fyrir tímabilið 2011-2013. Þar sem engin markaðsleyfi voru gefin út á viðmiðunartímabilinu er ekki unnt að reikna út grunnlínuna sem samræmdi áhættuvísir 2 byggir á. Fyrsta markaðsleyfið vegna neyðarástands í plöntuvernd var gefið út árið 2020 hér á landi.