Umhverfistofnun - Logo

Úthlutunar reglur

Umhverfisstofnun sér um sölu hreindýraveiðileyfa sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Umhverfisstofnun tekur við umsóknum um hreindýraveiðileyfi frá janúar til og með 15. febrúar ár hvert, nema annað sé tekið fram og auglýst sérstaklega af Umhverfisstofnun.

Aðeins er tekið við umsóknum um hreindýraveiðileyfi rafrænt í gegnum heimasvæði veiðikortahafa, þ.e. „Þjónustugáttin - Mínar síður“ á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Dregið verður úr innsendum umsóknum ef umsóknir eru fleiri en leyfi.

Allar umsóknir verða að vera rafrænar og koma í gegnum heimasvæði viðkomandi veiðikorthafa.  Ekki er tekið við umsóknum í tölvupósti, bréflega eða í síma.

Sótt er um aðalval en einnig er hægt að sækja um veiðileyfi til vara á öðru svæði, um annað kyn eða hvoru tveggja. Þá er einnig hægt að sækja um eitt aukadýr. 

Til að umsókn teljist gild þarf umsækjandi að vera veiðikorthafi, þ.e. hafa verið stofnaður í viðskiptamannaskrá veiðikorthafa. Veiðikorthafi þarf að hafa heimild til hreindýraveiða á veiðikorti þegar dregið er úr umsóknum. Veiðikort umsækjanda þarf aftur á móti ekki að vera í gildi þegar sótt er um veiðileyfi eða þegar dregið er úr umsóknum. Til að fá þá heimild á veiðikortið þarf viðkomandi að hafa skotvopnaleyfi með B-réttindum eða sambærileg réttindi. Upplýsingum um B-skotvopnaréttindi þarf að koma til Umhverfisstofnunar á heimasvæði viðkomandi veiðikorthafa á sama tíma og sótt er um hreindýraveiðileyfi. Það er gert með því að hengja skýra mynd af skotvopnaleyfi við umsókn þar sem fram kemur að viðkomandi hafi B-réttindi.

Að umsóknarfresti liðnum er farið yfir umsóknir og ógildum umsóknum vísað frá. Umsókn um hreindýraveiðileyfi getur t.d. talist ógild ef viðkomandi hefur ekki B-réttindi á skotvopnaleyfi eða ef kyn eða veiðisvæði er ekki tilgreint í aðalvali.

Þegar endanlegur umsóknarlisti liggur fyrir í gagnagrunni fá allar gildar umsóknir slembitölu frá 1-100.000. Sú aðgerð er framkvæmd af starfsmanni Umhverfisstofnunar að viðstöddum lögfræðingi Umhverfisstofnunar. Þessar slembitölur ráða því hvar í röð umsókn lendir. Í aðalvali fær lægsta slembitalan á hverju svæði fyrir sig fyrsta dýr.

Aðalval

Umsóknum er síðan raðað eftir slembitölunum á opnum fundi sem leitast er eftir að streyma á netinu. Þá er hverjum flokki raðað fyrir sig, þ.e. eftir svæði og kyni.

 1. Ef umsóknir eru fleiri eru en dýr í boði í tilteknum flokki lenda þeir í biðröð sem ekki fá dýr úthlutað. Slembitölurnar ráða því hvar í biðröð viðkomandi lendir, þannig lendir sú umsókn sem hefur lægstu slembitöluna fremst í biðröðinni.
 2. Ef umsóknir eru færri en dýr í boði í tilteknum flokki kemur til skoðunar varaval umsækjenda. Varavali er ekki streymt á netinu. 

Að útdrætti loknum fá allir umsækjendur senda tilkynningu um hvort þeir hafi fengið hreindýraveiðileyfi eða ekki. Hafi viðkomandi ekki fengið hreindýraveiðileyfi fær hann í tilkynningunni upplýsingar um númer hvað í biðröð hann er. 

Ganga þarf frá skil á veiðiskýrslu ársins á undan og endurnýja veiðikort fyrir 1. apríl í gegnum Þjónustugáttina – Mínar síður. Skoða þarf einnig gildistíma skotvopnaleyfis. Hvoru tveggja þarf að vera í gildi þegar farið er á veiðar og meðferðis.

Gjald fyrir veiðileyfið skal greitt í einni greiðslu eigi síðar en 15. apríl. Greiði leyfishafi ekki fyrir lok dags 15. apríl er leyfi hans úthlutað til fyrsta umsækjanda á biðlista eða fyrsta manns á fimm skipta lista eftir atvikum (sjá neðar).

Varaval

Ef biðlisti klárast á tilteknu svæði er skoðað hvort einhverjir hafi sótt um í varavali hreindýraveiðileyfi fyrir viðkomandi kyni á því svæði. Varaumsóknum verður úthlutað eftir reglum um fimmskipta lista (sjá að neðan) og eftir það ræður slembitala röðinni á varaumsóknunum í öfugri röð við aðalumsókn þannig að hæsta slembitala fær fyrsta dýr og svo í lækkandi röð.

Aukaval

Tæmist listi varaumsókna verður hreindýraveiðileyfum úthlutað eftir sömu reglum og varaumsókn. Að auki geta þeir sem velja dýr í aukavali fengið úthlutað aukadýri eftir því vali ef búið er að bjóða öllum sem ekki hafa fengið hreindýraveiðileyfi úthlutað.

Úthlutun veiðileyfa sem skilað er inn 

Ef veiðimaður hyggst ekki nýta veiðileyfi sem hann hefur að fullu greitt fyrir skal hann skila því inn til Umhverfisstofnunar (UST). Endurgreiddir eru ¾ hlutar gjaldsins takist Umhverfisstofnun að endurselja leyfið. Ef veiðileyfi er skilað inn er leitast við að úthluta því til fyrsta umsækjenda á biðlista eða á fimm skipta lista eftir atvikum. Veiðileyfum sem skilað er inn, er úthlutað eftir biðlista fram til 5. september varðandi tarfa og 10. september varðand kýr en eftir þann tíma áskilur Umhverfisstofnun sér rétt til að víkja frá biðlista og bjóða þeim veiðimönnum sem hafa tilkynnt stofnuninni sérstaklega að þeir séu reiðubúnir að kaupa hreindýraveiðileyfi allt til loka veiðitímabilsins. Unnt er að senda slíka tilkynningu á Þjónustugáttinni – Mínum síðum frá og með 1. júní. Umsækjendum sem tilkynna áhuga sinn á að kaupa hreindýraveiðileyfi fram á lokadag veiðitímabilsins er raðað upp samkvæmt þeirri slembitölu sem þeir fengu við úthlutunina í febrúar. 

Takist Umhverfisstofnun ekki að endurselja leyfið er gjaldið ekki endurgreitt nema sérstakar ástæður mæli með endurgreiðslu en í slíkum tilfellum er Umhverfisstofnun heimilt að endurgreiða gjaldið að fullu, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða með síðari breytingum.

Fimm skipta reglan 

Þar sem útdráttur hvers árs er óháður útdráttum fyrri ára getur sú staða komið upp að einstaklingar fái ekki dýr mörg ár í röð. Til að mæta því eru þeir einstaklingar sem ekki hafa fengið hreindýraveiðileyfi úthlutað í síðustu fimm skipti sem þeir hafa sótt um, teknir fram fyrir biðröð á því svæði sem þeir sóttu um veiðileyfi á. 

Framkvæmd 

 • Listi yfir þá sem ekki hafa fengið veiðileyfi úthlutað síðustu 5 umsóknir og sækja um er fenginn úr gagnagrunni og fjöldi einstaklinga á listanum birtur áður en dregið er. Talning byrjar árið 2003. 
 • Þeir sem eru á listanum og hafa sótt um, verða í útdrætti jafnir öðrum og hafa því jafna möguleika á því að verða dregnir út. 
 • Þegar óstaðfestum eða innskiluðum veiðileyfum verður endurúthlutað verða þeir sem ekki fengu úthlutun 6. skiptið í röð í aðalútdrætti teknir fram fyrir biðröð á því svæði og kyni sem þeir sóttu um.
 • Ef til úthlutunar varadýra kemur verður skoðað hvort þeir sem á listanum eru hafi sótt um það kyn á því svæði sem varadýr og verða þeir teknir fram fyrir þann lista eftir sömu reglum og gilda um biðraðarúthlutun. 
 • Allar gildar umsóknir teljast með, óháð því hvort viðkomandi hafi sótt um árlega eða með hléum frá 2003. 
 • Ef fleiri en einn eru á sama svæði gengur sá fyrir sem hefur fleiri ár óúthlutað. 
 • Ef fleiri en einn eru á sama svæði með jafnmörg ár óúthlutað gengur sá fyrir sem lægri slembitölu hefur. 
 • Sæki veiðimaður sem er á listanum ekki um dýr helst hann á listann árið eftir.
 • Fái einstaklingur veiðileyfi úthlutað þegar veiðitímabil er hafið fellur hann af listanum að því gefnu að honum takist að fella dýr. Ef einstaklingur þiggur ekki úthlutun þegar veiðitímabil er hafið, eða ef viðkomandi tekst ekki að fella dýr helst hann áfram á listanum.