Náttúra

Jarðfræði

Vestfjarðakjálkinn varð til í mörgum hraungosum á tertíertíma (fyrir um 14 – 16 milljónum ára). Goslög af blágrýti og hraungjalli hlóðust hvert ofan á annað og mynduðu hásléttu. Ísöld lauk fyrir um 10.000 árum og hafði framskrið jökulsins þá grópað djúpa firði í hásléttuna og sorfið niður mishörð millilögin. Eftir stóðu hörð blágrýtislög sem bera uppi fossastiga Dynjanda. Hálendi Glámu og Dynjandisheiðar var hulið jökli þar til fyrir rúmlega 100 árum og þaðan fellur nú vatn úr Eyjavatni til sjávar um Dynjandisá en vatnasvið Dynjanda er stórt.

Fossar

Óvíða er vatnsniður meiri en við Dynjanda. Ómur af drununum berst langar leiðir og ber fossinn því nafn með rentu. Fossinn hefur stundum verið kallaður Fjallfoss en það mun vera rangnefni og má rekja til sóknarlýsingar Rafnseyrarkirkjusóknar frá árinu 1839. Þar segir að bærinn Dynjandi taki nafn af „stórum fjallfossi árinnar sem rennur hjá bænum“ og er þá eflaust átt við að hann steypist ofan af fjallsbrún. Sérstaða Dynjanda er helst fólgin í því hve formfagur fossinn er þar sem hann fellur af brún niður eftir hörðu blágrýtislagi, 99 m hár, 30 m breiður efst en breiðir úr sér í 60 m breidd neðst. Áin liðast svo áfram niður sjö fossa sem eru hverjum öðrum fegurri uns hún nær um skamman veg til sjávar í Dynjandisvogi. Fossarnir nefnast (talið að ofan): Dynjandi, Hæstahjallafoss (Úðafoss), Strompgljúfrafoss (Strompur), Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss, Kvíslarfoss, Hundafoss og Bæjarfoss.

Auk Dynjandisár fellur áin Svína í Dynjandisvog og talið er líklegt að hún dragi nafn sitt af svínum sem forðum voru höfð á beit í nágrenninu. Í Svínu er fallegur foss sem nefnist Gyrðisfoss og sést hann vel frá þjóðveginum þegar keyrt er upp Dynjandisdal en fellur nokkuð í skuggann af hinum fræga nágranna sínum og fær trauðla þá athygli sem hann annars ætti skilið.

Gróður

Gróðurfar á svæðinu einkennist af graslendi og lyngbrekkum. Flatlendið er að mestu gömul tún og graslendi en í brekkunum má finna lyng neðst og mosa, fjalldrapa og birki eftir því sem ofar dregur. Í kringum læki eru votlendisblettir þar sem klófífa og mýrarstör vaxa. Austan árinnar er birki einna helst áberandi en reyniviður stendur upp úr kjarrinu á stöku stað. Á svæðinu finnast sjaldgæfar tegundir á landsvísu svo sem sóldögg og þríhyrnuburkni en alls hafa 77 tegundir háplantna fundist.

Jarðvegur er grunnur og laus í sér sem gerir það að verkum að gróðurinn er mjög viðkvæmur fyrir traðki. Öllum er heimil för um svæðið enda sé gengið á merktum gönguleiðum, gróðri hlíft og góðrar umgengni gætt.

Dýralíf

Fjölbreytt fuglalíf er í Dynjandisvogi og þar hafa verið skráðar 35 tegundir fugla. Krían er áberandi á varptíma og hún á það til að steypa sér yfir gesti ef farið er of nærri varpsvæði hennar. Algengt er að sjá álftir og æðarfugl á sundi í sjónum við fjöruna og tjaldurinn vappar þar nálægt. Straumönd er gjarnan við ósa Dynjandisár og þegar líða tekur á sumarið má sjá hana á sundi upp með ánni. Líflegast er um að litast á vorin þegar farfuglar koma til landsins og síðsumars þegar þeir hópa sig saman áður en lagt er í langferð á vetrarstöðvar. Algengur fargestur vor og haust er rauðbrystingur en hann hefur vetursetu í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku en verpir á Grænlandi og í Kanada. Landselir sjást oft baða sig í sólinni við ósa árinnar Svínu á útfiri.