Fráveitumál

Fráveituvatn er í eðli sínu notað vatn. Vatn sem við höfum nýtt til að baða okkur, elda mat, sturta niður í klósettin, þvo bíla, föt og ýmislegt annað. Notkunin veldur því að alls konar efni s.s. úrgangur frá fólki, matarleifar, olíur, sápur, hreinsiefni, málmar og jafnvel hættuleg efni blandast í annars hreint vatn.

Fráveituvatn getur verið mengunarvaldur en góð hreinsun getur dregið verulega úr neikvæðum áhrifum þess:

  • Úrgangur frá fólki er saurmengaður lífrænn úrgangur sem inniheldur bæði áburðarefni og mikið magn örvera og sýkla.
  • Í fráveituna berst ýmis úrgangur t.d. af yfirborði gatna og rusl (blautklútar, tannþráður o.fl.) sem er hent í í salerni.
  • Ýmis hættuleg efni s.s. úr hreinsiefnum, eldtefjandi efni og skordýraeitur geta fundist í fráveituvatni.
  • Mikið magn af næringarefnum (fosfór og köfnunarefni) í skólpi getur valdið ofauðgun eða aukinni framleiðslu þörunga (þörungablóma) sem getur leitt til skorts á súrefni í vatninu. Slíkt hefur neikvæð áhrif á staðbundið vatnalíf og getur valdið dauða ýmissa lífvera.
  • Fráveituvatn mengað af lyfjaleifum getur haft neikvæð áhrif á dýr, eins og fjölgun og hegðun þeirra. Losun sýklalyfja í skólpi eykur þróun lyfjaónæmis hjá bakteríum í umhverfinu.

Best er að draga eins og hægt er úr allri efnanotkun og sturta ekki efnum í klósett og niðurföll heldur fara með þau til móttökuaðila slíks úrgangs.