Hvað eru F-gös?

 

Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, jafnan kallaðar F-gös, eru manngerðar gastegundir sem framleiddar eru til notkunar í margvíslegum iðnaði og vörum. F-gösin eru mörg hver öflugar gróðurhúsalofttegundir og í ljósi þess hafa verið settar reglugerðir til að draga úr áhrifum á hlýnun jarðar vegna losunar þessara efna út í andrúmsloftið. Hér á landi er það reglugerð nr. 1066/2019 sem tekur á þessum málaflokki.

F-gös hafa verið framleidd til notkunar í ýmsum vörum og iðnaði t.a.m. í kæli- og frystikerfum, loftræstingum, varmadælum, slökkvikerfum, háspennurofum, frauðplasti, leysiefnum og í úðabrúsa. Töluvert hefur verið um það að F-gösin hafi verið notuð sem staðgönguefni fyrir svokölluð ósoneyðandi efni en það eru efni sem valda rýrnun ósonlagsins í heiðhvolfinu.

Merking hugtaka

Hnatthlýnunarmáttur og koldíoxíðjafngildi eru hugtök sem koma mikið við sögu í umræðum og regluverki varðandi F-gös og því gott að vita hvað átt er við með þeim:

  • Hnatthlýnunarmáttur: Geta gróðurhúsalofttegundar til að valda loftslagshlýnun samanborið við mátt koldíoxíðs, reiknað sem hlýnunarmáttur tiltekins massa af gróður­húsa­lofttegund í 100 ár sem hlutfall af hlýnunarmætti sama massa af koldíoxíði.

  • Koldíoxíðjafngildi: Magn gróðurhúsalofttegunda, gefið upp sem margfeldið af massa gróður­húsalofttegundanna og hnatthlýnunarmáttar þeirra. Mælieining koldíoxíðjafngildis er háð mæli­einingu massa gróðurhúsalofttegundanna sem notuð er við útreikninginn.

    Athugið að koldíoxíðjafngildi eru stundum kölluð öðrum nöfnum s.s. koldíoxíðígildi eða jafngildiseiningar koldíoxíðs en öll nöfnin vísa til sama hugtaks.

Flokkar F-gasa, notkun og eiginleikar

Þau efni sem lúta ströngustu reglunum eru talin upp í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 517/2014. Efnunum má skipta niður í flokka eftir efnafræðilegri gerð þeirra eins og útlistað er hér að neðan.

  • Vetnisflúorkolefni (HFC) (e. hydrofluorocarbons)

    Efnasambönd sem innihalda auk flúors aðeins kolefni og vetni. Vetnisflúorkolefni eru í útbreiddri notkun sem kælimiðlar. Efnin eru einnig notuð sem þanefni (e. blowing agents) fyrir frauð, sem leysar og sem slökkvimiðlar.

  • Perflúorkolefni (PFC) (e. perfluorocarbons)

    Efnasambönd sem innihalda aðeins kolefni og flúor. Þessi efni eru meðal annars notuð í raftækjaframleiðslu og í snyrtivöru- og lyfjaiðnaði.

  • Brennisteinshexaflúoríð (SF6) (e. sulfur hexafluoride)

    Efnasamband brennisteins og flúors sem einkum er notað sem einangrunarefni í háspennurofum.

F-gös hafa mörg hver mjög háan hnatthlýnunarmátt eða allt að 23.000 sinnum meiri en CO2. Hár hnatthlýnunarmáttur þeirra orsakast bæði af eiginleikum þeirra til að gleypa innrauða geislun frá jörðu og löngum líftíma þeirra í andrúmslofti.