Skógafoss

Sjá þrívíddarkort af svæðinu.

Náttúruvættið Skógafoss

Skógafoss var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1987. Þessi svipmikli, 60 metra hái foss er neðsti fossinn í fegurri fossaröð Skógaár. Hið friðlýsta svæði við Skógaá takmarkast við hringveginum í suðri og nær um 7 km í norður upp á Skógaheiði, en mörkin fylgja ánni 100 metra sitthvoru megin frá miðju hennar.  Er því öll fossaröðin í Skógaá upp að göngubrúnni á leiðinni upp á Fimmvörðuháls friðlýst. Nafnkunnir fossar í þessari röð, auk Skógafossar, eru m.a. Hestavaðsfoss, Fosstorfufoss og Skálabrekkufoss.  Heildarflatarmál hins friðlýsta svæðis er 1,65 ferkílómeter.  

Samkvæmt þjóðsögu er að finna gullkistu landnámsmannsins Þrasa frá Skógum undir Skógafossi.
Umhverfisstofnun fer með daglega umsjón náttúruvættisins og er þar dagleg landvarsla, allt árið um kring. Vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Skógafoss lauk á vormánuðum 2019. Með henni eru markaðar markvissar stjórnunaraðgerðir til 2028 til sjálfbærrar verndunar þeirrar fegurðar og krafts sem Skógafoss býr yfir. Verndaráætlunin var unnin í sameiningu af Umhverfisstofnun, Rangárþingi Eystra og landeigendum Ytri-Skóga og Drangshlíðardals. 

Ljósmyndakeppni 2012

Ferðamannastaðurinn Skógafoss

Skógafoss er í alfaraleið og er einn allra fjölsóttasti áfangastaður ferðamanna á leið þeirra um suðurströndina. Svæðið á appelsínugulum lista yfir áfangastaði í hættu eftir að hafa verið áður á rauðum lista. Með bættri aðgangsstýringu og takmörkunum á umferð hefur tekist að ná betri stjórn á umferð gesta á svæðinu og ástand þess batnað. Mikil uppbygging hefur orðið á innviðum á svæðinu undanförnum ár, t.d. með gerð útsýnispalls við fossbrúnina og tröppur upp meðfram honum. 

Nýr göngustígur liggur upp á Skógaheiði ofan við Skógafoss. Unnið hefur verið að uppbyggingu stígsins í áföngum og verður áframhald á þeirri vinnu árin 2019 og 2020. Neðan við Skógafoss hafa gróin svæði verið afgirt til að sporna við átroðningi, auk þess sem sjálfboðaliðar hafa lagt mikla vinnu í að græða upp lokaða slóða í brekkunni við fossinn sem og annarsstaðar. Nýr uppbyggður göngustígur liggur í gegnum tjaldsvæðið. Uppbyggingin mun halda áfram á næstu árum og nýtt deiliskipulag fyrir svæðið gerir ráð fyrir að bílastæðið verði fært fjær fossinum auk þess sem tjaldsvæðið verður fært í skógarlundinn sem áin Kverna rennur í gegnum. Þá er gert ráð fyrir að tröppurnar við fossinn verði endurnýjaðar og færðar fjær fossinum. 

Á Skógum eru veitingahús og matarvagn, auk þess sem Skógasafn er opið allt árið.  Á svæðinu er einnig farfuglaheimili og hótel.
Flestir sem ganga yfir Fimmvörðuháls hefja leið sína við Skógafoss. Í upphafi er gengið upp meðfram Skógaá á hinum nýja göngustíg, en síðar taka við merktir gönguslóðar. Um 24 km ganga er yfir Fimmvörðuháls frá Skógum yfir í Þórsmörk.

Sérstakar reglur á svæðinu

  • Næturgisting er einungis heimil á tjaldsvæðinu neðan við fossinn. Á það við um húsbíla, ferðavagna og tjöld.
  • Óheimilt er að nota ómönnuð loftför (dróna) innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Undanskilið banninu er leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar.
  • Kvikmyndataka, ljósmyndun og viðburðir skulu ekki trufla dýralíf innan náttúruvættisins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka, ljósmyndun eða viðburðir sem geta haft áhrif á náttúru svæðisins og upplifun gesta eru háðir leyfi Umhverfisstofnunar, sem getur sett skilyrði þegar slík leyfi eru veitt.
  • Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð tímabundið á viðkvæmum svæðum þar sem hætta er á jarðvegsrofi og gróðurskemmdum.
  • Rekstur hesta er ekki leyfður innan náttúruvættisins, en ríðandi mönnum er heimil för um hefðbundnar leiðir innan þess.
  • Hjólreiðar eru heimilar á merktum hjólaleiðum og akvegum
  • Gæludýr skulu höfð í taumi

Frekari upplýsingar um sérstakar reglur um umferð og dvöl við Skógafoss má finna í stjórnunar- og verndaráætlun.