Matvæli

Við höfum öll heyrt frasann „þú ert það sem þú borðar“. En það sem við borðum hefur ekki aðeins áhrif á heilbrigði okkar sjálfra, heldur líka heilbrigði plánetunnar. Sem betur fer eru þetta ekki andstæður, heldur er vel hægt að blanda saman heilbrigði manneskjunnar og plánetunnar í ljúffenga máltíð.

Þegar heilbrigði fólks og umhverfis er haft að leiðarljósi þá leyfum við grænmeti, ávöxtum, hnetum og baunum að leika stærra hlutverk en áður. Það er hægt að fara mismunandi leiðir að þessu markmiði, en hér koma nokkur ráð:

  • Bættu grænmeti og baunum við kjötrétti. Þetta er til dæmis gert með því að bæta grænmeti og baunum út í kássur, borgara, buff, fars, karrý eða skálar.
  • Veldu próteingjafa með minna kolefnisspori, t.d. baunir, belgjurtir, hnetur, egg, fisk, kjúkling og ost frekar heldur en rautt kjöt.
  • Láttu helminginn af disknum vera grænmeti. Aðal uppistaða hins helmingsins ætti svo að vera heilkornavörur, plöntuprótein og jurtaolía. Við þetta er svo hægt að bæta hóflegu magni af kjöti, mjólkurvörum og grænmeti með sterkju.
  • Prófaðu grænkerafæði. Þú þarft ekki að skilgreina sjálfan þig sem vegan til þess að prófa grænkerafæði. Til dæmis er hægt að vera „vinnu vegan“ og velja alltaf grænkerafæði þegar þú ferð í mötuneytið. 
  • Nýttu dýraafurðir betur. Ef þú borðar kjöt og fisk veldu þá fleiri aukaafurðir framleiðslunnar, svo sem innmat, sláturslög og hrogn dragðu þannig úr heildarlosun búfjárs með því að auka nýtingu á hverju kíló sem er framleitt.

Þessar ráðleggingar byggja meðal annars á niðurstöðum rannsóknarhópsins EAT sem hefur skoðað hvernig við getum minnkað líkur á ýmsum sjúkdómum, framleitt nægan mat fyrir alla og dregið úr losun gróðurhúsaloftteunda. Vísindamennirnir skoðuðu mismunandi gerðir af mataræði og áhrif þess á heilsu manneskjunnar og plánetunnar. Þeirra niðurstaða var að vistkerafæði (e. flexiterian diet) næði almennt séð best að stuðla að heilbrigði umhverfisins og manneskjunnar. Í grunninn snúast ráðleggingarnar um að borða fjölbreytt mataræði, þar sem ekkert er í raun bannað heldur er í staðinn lögð áhersla á að borða mun meira grænmeti og plöntu prótein en flestir gera í dag. Mælst er til þess að borða að minnsta kosti 125 grömm af baunum, linsum, ertum, hnetum og öðrum belgjurtum á dag. Hófleg neysla á kjöti miðar svo við að fólk borði 100 grömm af rauðu kjöti, 200 grömm af ljósu kjöti, og 200 grömm af fiski á viku. Þessar ráðleggingar samræmast vel ráðleggingum Landlæknis, sem leggur einnig áherslu á að auka neyslu grænmetis, ávaxta, heilkorna vara og fisks.

Það getur verið nokkuð flókið að átta sig á umhverfisáhrifum matvæla, þar sem margir þættir spila þar inn, en til einföldunar er hægt að horfa á kolefnisspor þeirra. Ef horft er til lífsferils matvæla má almennt segja að stærstu umhverfisáhrifin séu í framleiðslunni. Í töflunni má sjá dæmi um kolefnisspor matvælaflokka sem byggir á kerfisbundinni samantekt af rannsóknum.

Matvæli
Losun (kg CO2/kg)
Grænmeti
0,4
Ávextir
0,4
Mjólk
1,3
Fiskur
3,5
Kjúklingur
3,7
Ostur
8,6
Lambakjöt
26
Nautakjöt
27

Til að draga úr þeim áhrifum sem neysla matvæla hefur á loftslagið er því mælt með því að borða minna af rauðu kjöti. Fyrir þá sem ekki eru tilbúnir til að vera vegan eða grænkerar er hægt að byrja á að taka kjötlausan dag eða að borða frekar ljósara kjöt eða fisk. Þessar áherslur eiga einnig góðan samhljóm með ráðleggingum Landlæknis um mataræði þar sem þær eru almennt góðar fyrir heilsuna.

Til viðbótar við losun gróðurhúsalofttegunda frá matvælaframleiðslu er einnig notað mikið af vatni, varnarefnum, sýklalyfjum, landssvæði, orku og öðrum auðlindum til að framleiða mat. Því er mikilvægt að nýta hann vel og hugsa um þær auðlindir sem hafa farið inn í framleiðsluna.