Umhverfistofnun - Logo

Áhrif

Akstur utan vega virðist vera vaxandi vandamál á Íslandi. Margbrotin náttúra Íslands er eitt helsta aðdráttarafl okkar sem ferðumst um landið. Landið er víða viðkvæmt fyrir ágangi og gáleysislegur akstur getur valdið skemmdum á náttúrunni sem eru ár eða jafnvel áratugi að ganga til baka.

Ferðumst um landið með virðingu fyrir íslenskri náttúru að leiðarljósi. Íslenskur jarðvegur er eldfjallajarðvegur og mjög laus í sér. Þar af leiðandi mynda hjól farartækja auðveldlega djúp för í jarðveginn, hvort sem hann er gróinn eða ógróinn. Mjög erfitt er að afmá skemmdir af völdum utanvegaaksturs. Ísland liggur rétt sunnan við heimskautsbaug þar sem vaxtartími gróðurs er stuttur og gróðurskemmdir geta verið áratugi að jafna sig. Sama á við um sanda og ógróin svæði, þar sem skemmdir geta jafnvel verið enn lengur að hverfa en þar sem gróðurþekja hylur landið. Hjólför raska ásýnd landsins auk þess sem þau verða að farvegi fyrir vatn og stuðla þannig að jarðvegs- og gróðurrofi. Hjólför utan vega hafa einnig aðdráttarafl fyrir aðra vegfarendur og hvetja til frekari utanvegaaksturs.

Ökum aðeins vegi og merkta slóða en ekki utan þeirra. Göngum eða snúum við ef ekki verður komist lengra akandi. Öflum okkur upplýsinga um fyrirhugaða leið. Notum vegakort til þess að skipuleggja ferðalagið áður en lagt er af stað.

Virðum árstíðabundnar takmarkanir á umferð um óbyggðir og hálendi og fylgjumst með tilkynningum um ástand vega. Ábyrg umgengni um náttúru landsins gefur öllum kost á að njóta óspilltrar náttúru landsins um ókomin ár.

Upplýsingar um ástand vega fást í síma 1777 eða á vef Vegagerðarinnar.

 Akstur utan vega er stranglega bannaður og varðar sektum eða fangelsi!

Off-road driving is strictly prohibited in Iceland!