Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Staða regluverksins

Ósoneyðandi efni eru efni fortíðarinnar og ættu ekki að sjást í notkun í dag nema í algerum undantekingartilfellum. Útfösun efnanna hófst fyrir áratugum síðan og við erum nú komin að lokastigum þeirrar vegferðar.

Alþjóðlegt, evrópskt og íslenskt regluverk

Eyðing ósonlagsins er alþjóðlegt umhverfisvandamál sem þjóðir heims sameinuðust um að takast á við þegar á níunda áratug síðustu aldar. Regluverk sem miðar að því að draga úr losun ósoneyðandi efna og Ísland á aðild að er því margvíslegt:

  • Vínarsamningurinn um verndun ósonslagsins er alþjóðlegur samningur í vörslu Sameinuðu þjóðanna sem var gerður 1985.
    • Montréalbókunin um efni sem valda rýrnun ósonlagsins er bókun við Vínarsamninginn sem gerð var 1987.
  • Reglugerð (EB) nr. 1005/2009 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins kom í stað eldri gerðar Evrópusambandsins um ósoneyðandi efni árið 2009. Hún er sú reglugerð sem nú er starfað eftir í ESB/EES.
  • Reglugerð nr. 970/2013 um efni sem valda rýrnun ósonlagsins er íslenska reglugerðin sem innleiðir ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1005/2009 í íslenskan rétt (með nokkrum aðlögunum).

Hver er staðan í dag?

Einfaldasta útlistun stöðunnar í dag er að bannað er að framleiða, flytja inn og nota ósoneyðandi efni.

Fjallað er um mögulegar undanþágur frá framangreindu banni í III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1005/2009. Margar gerðir undanþága sem þar er fjallað um er ekki lengur mögulegt að sækja um eða veita þar sem tímafrestir fyrir þær eru liðnir.

Nánar um undanþágur.