Vatnshlot

Vatnshlot eru afmarkaðar stjórnsýslueiningar sem fá tiltekin raðnúmer innan stjórnar vatnamála. Til dæmis getur eitt stöðuvatn verið eitt vatnshlot, eða tiltekinn hluti straumvatns. Flokkun vatns í vatnshlot er forsenda stjórnar vatnamála. Samkvæmt reglugerð nr. 535/2011um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun skal skipta öllu vatni, bæði yfirborðsvatni og grunnvatni í vatnshlot. Sú flokkun er óháð stjórnsýslumörkum því vatn getur runnið í gegnum fleiri en eitt sveitarfélag á leið sinni til sjávar. Álag af völdum mengunar eða annarra þátta getur haft þau áhrif að vatnshlot séu afmörkuð enn frekar. Þannig getur þurft að skipta einu straumvatni upp í tvö vatnshlot, þ.e. lítt snortinn hluta og raskaðan/mengaðan hluta. 

Vistfræðileg gæðaflokkun yfirborðsvatns

Skilgreining á vistfræðilegu ástandi vatns nær til flóru og fánu, næringarefnainnihalds, þátta eins og seltu og hitastigs, efnamengunar, vatnsmagns, rennslismagns, vatnsdýpis og lögunar vatnsfarvegar. Samkvæmt kröfum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála skulu vatnshlot ávallt vera í mjög góðu eða góðu ástandi þ.e. fyrir ofan rauðu línuna sbr. myndina hér fyrir neðan. Ef ástand vatnshlota rýrnar skal fara í aðgerðir til að ná góðu ástandi. Flokkunarkerfi fyrir vistfræðilegt ástand yfirborðsvatns gerir ráð fyrir fimm gæðaflokkum:

  • Mjög gott ástand/náttúrulegt ástand  
  • Gott ástand
  • Ekki viðunandi ástand 
  • Slakt ástand 
  • Lélegt ástand

Gæðaflokkun grunnvatns

Flokkunarkerfi fyrir ástand grunnvatns er annað en flokkunarkerfi yfirborðsvatns. Mat á ástandi grunnvatns er tvíþætt og byggir flokkunin á magnstöðu grunnvatns og efnafræðilegu ástandi þess. Magnstaða grunnvatnsins er metin þannig að hæð vatnsborðs í grunnvatnshlotinu skal vera þannig að meðalvatnstaka á ári til langs tíma er ekki meiri en grunnvatnsauðlindin sem er tiltæk. Magnstaða er annaðhvort flokkuð sem góð eða slök. Við mat á efnafræðilegu ástandi grunnvatnshlota eru jafnframt tveir flokkar, þar sem efnafræðileg ástand er metið gott eða að vatnshlotið nái ekki góðu efnafræðilegu ástandi.

Ef ástand grunnvatnshlota er ekki gott, hvort heldur magnstaða eða efnafræðilegt ástand skal fara í aðgerðir til að ná góðu ástandi skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.