Reglugerðir um plöntuverndarvörur

Reglugerð 544/2015 um plöntuverndarvörur

Reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur er sett til innleiðingar á reglugerð EB nr. 1107/2009 um setningu plöntuverndarvara á markað og fleiri reglugerða sem tengjast henni. Með innleiðingunni taka reglur Evrópusambandsins í þessum málaflokki gildi hér á landi og Ísland verður fullgildur aðili að umfangsmiklu regluverki sem nær til setningar plöntuverndarvara á markað innan Evrópska efnahagsvæðisins.

Umhverfisstofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds hér á landi og gefur út markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvörum á grundvelli hennar.

Í reglugerðinni er kveðið á um að innflytjandi, framleiðandi eða annar aðili sem ber ábyrgð á markaðssetningu plöntuverndarvara á Íslandi skuli upplýsa Eitrunarmiðstöð Landspítala um efnasamsetningu og eiturhrif á þeim vörum sem hann setur á markað.

Um merkingar á plöntuverndarvörum gildir almennt reglugerð nr. 415/2015 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna. Að auki skal merkja plöntuverndarvörur í samræmi við ákvæði í reglugerð (ESB) nr. 547/2011. Nánar um merkingar á plöntuverndarvörum .

Reglugerð (EB) nr. 1107/2009 um setningu plöntuverndarvara á markað

Með setningu reglugerðar nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur var reglugerð (EB) nr. 1107/2009 um setningu plöntuverndarvara á markað innleidd í íslenskan rétt.

Markmiðið með reglugerð (EB) nr. 1107/2009 er að tryggja að innan Evrópska efnahagssvæðisins séu aðeins á markaði plöntuverndarvörur sem geta talist öruggar gagnvart fólki og umhverfi.

Helstu ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1107/2009 um setningu plöntuverndarvara á markað:

  • Virk efni eru metin með tilliti til áhættu þar sem ábyrgðin liggur hjá yfirvöldum í einstökum ríkjum. Matið skal byggja á hættueiginleikum efna (hazard) fremur en áhættu (risk) af völdum notkunar.
  • Ekki er leyft að nota virk efni í plöntuverndarvörur sem eru krabbameinsvaldandi (CMR), hættuleg gagnvart börnum í móðurkviði (PBT), trufla hormónajafnvægi eða skaða tauga- eða ónæmiskerfi.
  • Hvert virkt efni er samþykkt í ákveðinn tíma í samræmi við áhættuna við notkun þess og háð endurskoðun.
  • Virk efni sem heimilt er að nota í plöntuverndarvörur fara á sameiginlegan lista auk hjálparefna (synergists) og eiturdeyfa (safeners). Meðefni (co-formulants) sem óheimilt er að nota fara á sérstakan lista.
  • Markaðsleyfi fyrir plöntuverndarvörum eru gefin út af hverju aðildarríki fyrir sig.
  • Aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu er skipað í 3 svæði, Norður-, Mið- og Suðursvæði og skulu ríki innan sama svæðis hafa með sér samvinnu við veitingu markaðasleyfa. Ísland tilheyrir Norðursvæðinu.
  • Fyrst er gefið út markaðsleyfi í einu ríki innan svæðisins og í kjölfarið má veita gagnkvæma viðurkenningu á því markaðsleyfi með einfaldari málsmeðferð í öðrum ríkjum þess.
  • Skylda verður lögð á herðar yfirvalda sem veita markaðsleyfi að meta plöntuverndarvörur með hliðsjón af vörum sem gegna sama hlutverki en hafa mismikil áhrif á heilsu manna og umhverfi.
  • Skiptiregla verður virk sem felur í sér að skaðlegustu vörunum verði skipt út á þremur árum og yfirvöld skulu fylgjast með vörum sem innihalda virk efni sem skipta á út.
  • Trúnaðarskylda verður á prófunarniðurstöðum fyrir samþykkt virk efni í 10 ár nema vegna prófunar á hryggdýrum.

    Texta reglugerðar (EB) nr. 1107/2009 í heild má finna hér.

    Samþykkt virk efni í plöntuverndarvörum á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 1107/2009 má finna í gagnagrunni ESB yfir plöntuverndarvörur (EU Pesticides database).