Skuldbindingar Íslands

Árlega skilar Umhverfisstofnun Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (National Inventory Report - NIR) til Evrópusambandsins og loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (United Nation Framework Convention on Climate Cange – UNFCCC) í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Losun frá LULUCF (Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt) fellur ekki undir skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum með beinum hætti. Binding kolefnis úr andrúmslofti sem á sér stað t.d. við skógrækt er talin fram undir flokknum LULUCF og getur Ísland talið fram ákveðna bindingu frá LULUCF á móti losun frá öðrum geirum en það er að mjög takmörkuðu leyti. Losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum er metin og kemur fram í losunarbókhaldinu en er ekki hluti af losun sem telur gagnvart ESB og UNFCCC. Ísland tekur þátt í ETS viðskiptakerfinu um losunarheimildir sem tekur á losun frá alþjóðaflugi (og til stendur að alþjóðasiglingar gera það líka).

Parísarsáttmálinn

Parísarsáttmálinn er samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (United Nations Framework Convention on Climate Change - UNFCCC). Markmið samningsins er að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig við upphaf iðnvæðingarinnar en jafnframt skuli leitast við að halda hækkuninni undir 1,5°C. Að auki miðar samningurinn að því að efla getu ríkja til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga með aðlögun og stuðningi þróaðra ríkja við þróunarríki og viðkvæmari lönd.

Samkvæmt sáttmálanum skulu aðildarríkin setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, svonefnd landsákvörðuð framlög (Nationally Determined Contributions – NDC´s).

Árið 2016 gekk Parísarsáttmálinn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum í gildi á heimsvísu. Samningurinn var í París í desember 2015, undirritaður af Íslandi í apríl 2016 og fullgilltur af Alþingi í september 2016.

Sameiginleg markmið með ESB og Noregi

Fyrir Parísartímabilið (2021-2030) hafa aðildarríki ESB, auk Íslands og Noregs, sett sér sameginileg markmið um 55% samdrátt í losun árið 2030 miðað við 1990 (var áður 40%). Til að ná markmiðinu árið 2030 þarf að draga úr losun (miðað við losun ársins 2005) um: 

  • 62% frá uppsprettum sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
  • 40% frá uppsprettum sem eru á beinni ábyrgð ríkjanna (losun utan gildissviðs viðskiptakerfis ESB og án losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum, innanlandsflugi, landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt).

Losun frá landnotkun og skógrækt (LULUCF) fellur undir skuldbindingarnar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ekki liggur fyrir hver hlutdeild Íslands verður fyrir losun á beinni ábyrgð ríkja í 55% markmiðinu en markmiðið var 29% samdráttur þegar yfirmarkmiðið var 40%. Hlutfall annara aðildaríkja ESB í markmiðum árið 2030, miðað við 2005, má sjá hér.

Regluverkið nær ekki til losunar frá flugstarfsemi (nema að hluta í gegnum ETS kerfið) þar sem Parísarsamningurinn tekur ekki til losunar frá alþjóðlegri flugstarfsemi. Stefnt er að því að takmarka losun frá flugstarfsemi með tilkomu alþjóðasamkomulags Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).

Kýótó-bókunin

Fyrsta skuldbindingatímabilið 2008-2012

Ísland stóð við skuldbindingar sínar fyrir fyrsta viðskiptatímabil Kýótó-bókunarinnar fyrir árin 2008– 2012. Samkvæmt sérstakri ákvörðun Loftslagssamningsins (oft nefnd „íslenska ákvæðið“) er Íslandi þó heimilt að halda losun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera utan við losunarskuldbindingar sínar.

Heildarlosun Íslands á tímabilinu voru rúmlega 23.356 kt. CO2-íg. Ísland gerði upp tæplega 20.099 þúsund losunarheimildir og rúmlega 3.257 þúsund voru tilkynntar sérstaklega undir íslenska ákvæðinu. Upplýsingar um uppgjör Íslands sem og annarra ríkja má finna á vefsíðu Loftslagssamningsins.

 

Annað skuldbindingatímabilið 2013-2020

Samkvæmt Doha-breytingunni (samþykkt af Íslandi 2015) skal Ísland ekki losa meira en 80% af 1990 losun sinni árið 2020 til að uppfylla skuldbindingar sínar á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (2013-2020). Skuldbindingar Kýótóbókunarinnar ná ekki til losunar frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum né losunar frá landnotkun, breyttri landnotkun eða skógrækt (LULUCF), þó svo að gerð sé grein fyrir þeirri losun í losunarbókhaldi Íslands. Aðildaríki geta þó talið sér bindingu kolefnis vegna LULUCF til tekna að einhverju leyti.

Ísland og ESB hafa gert með sér tvíhliða samning um sameiginlegar efndir á skuldbindingum Íslands og ESB við UNFCCC á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar (undirritað af ESB og Íslandi 1. apríl 2015).

Samkvæmt samningi Íslands og ESB um sameiginlegar efndir hefur Ísland fengið úthlutað heimildir sem jafngilda losun á rúmlega 15.327 kt. af CO2-íg. á tímabilinu 2013-2020 utan viðskiptakerfis ESB. Auk þess hefur Ísland heimild til að nota bindingareiningar (RMU). Á árunum 2013-2020 var losun sem fellur undir skuldbindingar Íslands, án viðskiptakerfis ESB, 23.030 kt CO2-ígildi og bindingareiningar 4.299 kt CO2-íg. Ísland þarf því að kaupa losunarheimildir sem samsvara 3.404 kt CO2-íg. til að standast skuldbindingar sínar á öðru skuldbindingatímabilinu.