Umhverfistofnun - Logo

Grafarvogur innan Gullinbrúar

Mynd: Jón Stefán Jónsson
Mynd: Jón Stefán Jónsson

Umhverfisstofnun, ásamt landeiganda, sveitarfélaginu Reykjavík, kynnir hér með áform um friðlýsingu Grafarvogs innan Gullinbrúar sem friðland í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Fjölbreytt fuglalíf er við Grafarvog innan Gullinbrúar og fara þar um þúsundir vaðfugla. Svæðið er alþjóðlega mikilvægur viðkomustaður farfugla, einkum vaðfuglategunda, s.s. rauðbrystings, sanderlu, lóuþræls, heiðlóu, jaðrakans og fleiri tegunda auk þess að vera mikilvægur fæðuöflunarstaður fugla allt árið um kring. Innri hluti svæðisins er einn af fáum óspilltum leirusvæðum innan borgarmarkana. Grafarvogur ásamt leirum er skráður á náttúruminjaskrá (126) sem einn mikilvægasti viðkomustaður farfugla, einkum vaðfugla, á höfuðborgarsvæðinu, auk þess að vera hluti af stærri tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands (Elliðárvogur-Grafarvogur)  sem svæði á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár í samræmi við lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Leirur svæðisins, sem fóstra mikið fuglalíf, njóta jafnframt sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er vogurinn vinsælt útivistarsvæði og þykir aðgengilegur til náttúruupplifunar og fuglaskoðunar.

Með áformum um friðlýsingu svæðisins er horft til þess að vernda til framtíðar náttúrulegt ástand Grafarvogs og líffræðilega fjölbreytni hans, þ.m.t. mikilvægar fjöruvistgerðir, búsvæði fugla og óspillta leiru.

 Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast við afmörkum þá sem birt er á korti:

Kort (pdf)

Áform þessi eru kynnt í samræmi við málsmeðferðarreglur 2. og 3. mgr. 36. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, sbr. 2. mgr. 38. gr. laganna.  Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, landeiganda, sveitarfélaginu Reykjavík og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að því búnu verða auglýst opinberlega og öllum gefinn kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu.

 Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 10. ágúst 2021. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið  ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

 Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila, verði þess óskað, í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

 Frekari upplýsingar veita Davíð Örvar Hansson (davidh@ust.is) og Eva Sólan (evasolan@ust.is) eða í síma 591-2000.

Senda ábendingu

Upplýsingar

Skrár