Flatey á Breiðafirði

Umhverfisstofnun, Reykhólahreppur, framfarafélag Flateyjar og ábúendur hafa unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið Flatey.

Flatey á Breiðafirði var fyrst friðlýst sem friðland árið 1975. Friðlýsingin var endurskoðuð og friðlandið stækkað með auglýsingu nr. 955/2021. Friðlandið er nú 1,62 km2. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla, einkum varpsvæði fágætra fuglategunda. Friðlandið hefur hátt vísinda- og fræðslugildi og er vel þekkt á meðal vísindamanna og fuglaáhugafólks. Markmið með friðlýsingunni er einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins, með áherslu á búsvæði og afkomu varpfugla og að tryggja fræðslu um fuglalífið í eynni og nágrenni.

Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og er þar fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði, miklum fjörum og takmörkuðu aðgengi rándýra að svæðinu. Í friðlandinu verpa fuglategundir sem eru sjaldgæfar á landsvísu, á válista og ábyrgðartegundir Íslendinga, s.s. þórshani, kría og lundi. Auk þess er þar mikið æðarvarp. Búsvæði og lífríki í fjörum og í sjó er afar fjölbreytt og mikilvægt fæðusvæði margra fuglategunda. Náttúrufegurð svæðisins er einnig mikil. Gróðurfar einkennist af túnum, grasmóum, gulstararmýrum og sjóflæðagróðri. Þar finnst marhálmur sem er sjaldgæfur á landsvísu.

Hér fyrir neðan eru skjöl sem tengjast vinnu við áætlunina s.s. verk- og tímaáætlun, samráðsáætlun og fundargerðir. Lögð var áhersla á opið og gagnsætt ferli.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir ingibjorgb@umhverfisstofnun.is og Edda Kristín Eiríksdóttir eddak@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000


Samráðsáætlun 2022

Fundargerðir samstarfshóps:

  1. fundur samstarfshóps 3. október 2022 - Fundargerð
  2. fundur samstarfshóps 27. október 2022 - Fundargerð  
  3. fundur samstarfshóps 17. nóvember 2022 - Fundargerð 
  4. fundur samstarfshóps 7. desember 2022 - Fundargerð
  5. fundur samstarfshóps 6. mars 2023 - Fundargerð
  6. fundur samstarfshóps 15. júní 2023 - Fundargerð

Áætluninni varð vísað til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til staðfestingar þann 31. ágúst 2023.

Frekari upplýsingar um áætlunina og kynningarferlið eru að finna hér.

Opinn kynningarfundur um stjórnunar- og verndaráætlunina fór fram þriðjudaginn 9. maí 2023. Kynningu frá fundinum má sjá hér.