Stök frétt

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfesti í dag Bessastaðanes sem friðland við hátíðlega athöfn að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar.

Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir. Svæðið er viðkomustaður margæsar og rauðbrystings en auk þess er þar æðarfugl, sendlingur og tildra sem hafa alþjóðlegt verndargildi. Stórir máfar og hávella eru algengir vetrargestir og hundruð tjalda, stelka og lóuþræla koma þar við á fartíma. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda.

Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi sem einkennist af vistgerðunum starungsmýravist, gulstaraflóavist og grasengjavist. Língresi- og vingulsvist er á allstórum flákum inni á miðju nesinu og á svokölluðum Rana. Verndargildi vistgerðanna er miðlungs til mjög hás og eru votlendisvistgerðirnar og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. 
Friðlandið er 4,45 km2 að stærð. 

Friðlýsing svæðisins miðar að því að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla. Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fuglalífs. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki og tækifærum til útivistar.
Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu og ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar í samvinnu við embætti forseta Íslands, Garðabæ, Minjastofnun Íslands og fleiri hagsmunaaðila.

Hér má lesa meira um Bessastaðanes

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Viðstödd friðlýsinguna voru, auk forseta, ráðherra og bæjarstjóra, fulltrúar Minjastofnunar, forsætisráðuneytis og starfsmenn forsetaembættisins, ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar

Myndir með frétt: Þórdís Björt Sigþórsdóttir