Stök frétt

Dagana 6. til 8. maí leituðu kafarar frá Landhelgisgæslunni olíutanks sem sökk í Ytri flóa Mývatns í júní 2004. Tankurinn sem er úr stáli og rúmar 1000 lítra, hefur tvöfalt byrði með loftrúmi á milli. Leitin bar fljótt árangur og fannst stór málmhlutur 120 cm undir botnseti skammt frá þeim stað sem talið var að tankurinn hefði farið í vatnið. Yfirgnæfandi líkur eru á því að þar sé olíutankurinn fundinn en ekki náðist að grafa að honum til að staðfesta það með óyggjandi hætti. 

Umhverfisstofnun átti fund með Landhelgisgæslunni að lokinni leit þar sem farið var yfir niðurstöður hennar og upplýsingar fengnar um aðstæður og þörf á því að fjarlægja tankinn. Þar kom fram að aðgerðir við að fjarlægja tankinn úr setinu myndu hafa í för með sér rask. 

 Í kjölfarið ræddi stofnunin við Árna Einarsson hjá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn um stöðuna. Að mati hans er lítil tæring í súrefnissnauðu seti vatnsins og ryðgar tankurinn því afar hægt. 

Óvíst er hvort og hversu mikil olía er enn í tanknum en talið er að í honum hafi verið milli 200 og 500 lítrar þegar hann fór í vatnið árið 2004. Hugsanlegt er að olían hafi þegar lekið út þar sem leiðslur slitnuðu þegar hann féll útbyrðis. Í ljósi þess að staðsetning tanksins er nú kunn og að hann er alveg á kafi í botnsetinu er hann ekki lengur talinn alvarleg ógn við lífríki vatnsins. 

Að höfðu samráði við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn, sveitarstjóra Skútustaðahrepps og Landhelgisgæsluna telur Umhverfisstofnun ekki ástæðu til að ráðast í aðgerðir til að fjarlægja tankinn. 

Til þess að gæta ítrustu varkárni hefur verið unnin viðbragðsáætlun um viðbrögð við olíuleka, fjárfest verður í mengunarvarnarbúnaði og staðurinn vaktaður sérstaklega. 

Tengt efni