Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Höfundur myndar: Snævarr Guðmundsson

Á hverju ári er haldið upp á alþjóðlegan dag votlendis hjá aðildarríkjum Ramsar-samningsins og halda þjóðir á norðlægum slóðum upp á daginn þann 2. september. Ramsar-samningurinn dregur nafn sitt af borginni Ramsar í Íran þar sem hann var samþykktur árið 1971. Hann er fyrsti samningur sinnar tegundar sem fjallar um vernd og nýtingu ákveðinna búsvæða eða vistkerfa. Samningurinn öðlaðist gildi á Íslandi árið 1978 og þar með skuldbundu Íslendingar sig til að lúta ákvæðum hans, s.s. að tilnefna votlendissvæði á lista samningsins, stuðla að skynsamlegri nýtingu votlendissvæða, stofna friðlönd á votlendissvæðum og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um votlendisverndun. Ástæður þess að samningurinn var gerður voru áhyggjur af fækkun í mörgum fuglastofnun anda og gæsa og annarra votlendisfugla og stöðugur ágangur á búsvæði þeirra. Í mörg ár beindist athyglin fyrst og fremst að því að vernda votlendissvæði. En votlendi er miklu meira en bara búsvæði fugla og á síðustu árum hefur áhugi aukist á öðrum verðmætum votlendissvæða, t.d. til útivistar og erlendis þar sem votlendi eru sums staðar mikilvæg vatnsauðlind.

Hvað er votlendi?

Votlendi er samheiti yfir fjölda vistgerða eða búsvæða sem eru á mörkum lands og vatns. Svæðin einkennast af því að vatn er mjög grunnt eða vatnsstaða mjög há og vatn er rétt undir yfirborðinu. Margar skilgreiningar finnast á votlendi en vanalega eru vötn, grunnsævi, mýrar og ár flokkuð sem votlendi á Íslandi. Eins eru landsvæði sem vatn flæðir yfir hluta úr ári flokkuð sem votlendi.

Hvers vegna eru votlendi mikilvæg?

Vatn er grunnforsenda lífsins og gerir manninum mögulegt að nýta landið. Svæði sem eru án vatns eru oft mjög hrjóstrug og jafnvel óbyggileg. Votlendin eru mikilvæg náttúruauðlind og forsenda ríkulegs og fjölbreytilegs gróðurfars og dýralífs. Votlendi eru meðal þeirra vistkerfa á jörðinni þar sem framleiðni er mest og þar er jafnframt uppvaxtarsvæði fyrir fjölda tegunda. Vegna mikils gróðurs getur votlendi nýtt mikið af næringarefnum og getur því oft að hluta komið í veg fyrir að ofauðgun verði í vötnum eða hafsvæðum vegna mengunar frá áburðarefnum. Eins getur votlendi dregið mjög úr áhrifum flóða og jafnvel hindrað skyndileg flóð.

Aðaláherslan í vinnu Ramsarskrifstofunnar hefur verið að vernda þau votlendissvæði sem eftir eru í heiminum en þeim hefur á undanförnum áratugum farið fækkandi. Á sama tíma hefur mönnum orðið ljóst hversu mikla þýðingu votlendi hefur fyrir afkomu manna. Meiri áhersla hefur því verið lögð á fræðslu um hvernig hægt er að nýta votlendissvæði án þess að raska þeim. Verndun og skynsamleg nýting eru lykilhugtök í Ramsarsamningum.

Eitt af skilyrðum Ramsarsamningsins er að aðildarríki skulu tilnefna að minnsta kosti eitt votlendissvæði á skrá samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Í samningnum er votlendissvæði skilgreint mjög víðtækt og nær m.a. yfir mýrar, flóa, fen og vötn með fersku, ísöltu eða söltu vatni, þar á meðal sjó þar sem dýpi er innan við sex metra. Svæðin sem komast á skrá samningsins eru valin eftir ákveðnum viðmiðum, m.a. hvort tiltekin votlendisgerð er sjaldgæf á viðkomandi svæði eða hvort þar er að finna sjaldgæfar plöntur eða dýr. Eins þarf votlendið að vera búsvæði fyrir minnst 20.000 votlendisfugla eða búsvæði meira en 1% af ákveðnum fuglastofni og telst þá mikilvægt á heimsvísu.

Þau lönd sem skrifa undir Ramsar- samninginn skuldbinda sig til að vernda votlendi almennt, m.a. með því að vernda eða friðlýsa ákveðin svæði, nýta votlendi á skynsamlegan og sjálfbæran hátt og stuðla að betri lífsskilyrðum fyrir votlendisfugla. Ramsarsvæðin eiga að njóta sérstakrar athygli og ekki má breyta vistfræðilegum eiginleikum þeirra eða minnka afmörkun svæðanna nema þjóðarhagsmunir kalli á það. Ef votlendi er raskað skal bæta fyrir það eins og hægt er á sama stað eða þar sem lífríkisaðstæður eru svipaðar. Ef upp koma alvarleg vandamál á Ramsarsvæðum setur skrifstofa samningsins svæðið á lista yfir svæði sem þarf að hafa auga með (svarta listann) og ef nauðsynlegt er tekur skrifstofan þátt í að fjalla um mögulegar lausnir. Dæmi um vandamál sem hafa sett íslenskt Ramsarsvæði á listann er kísilgúrnám úr Mývatni sem þótti ekki samræmast verndunarmarkmiðum svæðisins. Þegar kísilgúrnámi lauk var svæðið aftur tekið af umræddum lista.

Á Íslandi eru þrjú Ramsarsvæði; Mývatn og Laxá (1977), Þjórsárver (1990) og Grunnafjörður (1996). Áður en svæðin voru sett á Ramsarskrána höfðu þau öll verið gerð að friðlöndum. Auk þessara þriggja svæða hafa tvö til viðbótar verið tilnefnd, Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið, og skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu um friðlýsingu votlendissvæðis við Hvanneyri og að tilnefna svæðið á lista Ramsarsamningsins. Auk þessara svæða er fjöldinn allur af votlendissvæðum á Íslandi sem eru mjög mikilvæg og fjölbreytt búsvæði þó að þau séu ekki á lista Ramsar yfir alþjóðlega mikilvæg votlendi.

Endurheimt votlendis

Í kjölfar breytinga í landbúnaði og með komu stórvirkra vinnuvéla urðu miklar breytingar á nýtingu votlendis. Mikil framræsla mýrlendis hófst á þessu tímabili og var hún styrkt úr opinberum sjóðum. Mýrar voru ræstar fram til túngerðar og til að auka beitiland. Í sumum landshlutum, t.d. á Suðurlandi milli Markarfljóts og Þjórsár, eru aðeins um 3% votlendis óraskað. Vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu gefst nú tækifæri til að endurheimta eitthvað af því votlendi sem tapast hefur. Með endurheimt er reynt að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir fjölbreyttara gróður og dýralíf sem áður ríkti. Ýmsar aðrar framkvæmdir en aðgerðir í landbúnaði hafa raskað votlendissvæðum, t.d. vegagerð og sorpurðunarstaðir, en reynt hefur verið að bæta fyrir þá röskun með endurheimt votlendis í samvinnu við framkvæmdaraðila. Fjöldi einstaklinga hefur einnig lagt til land til að endurheimta votlendi og eru til mörg dæmi út um allt land þar sem endurheimt votlendis hefur tekist mjög vel og gróður og fuglalíf færst í átt til fyrra horfs. Endurheimt votlendis getur einnig aukið útivistargildi svæða, þau verða áhugaverðari til fuglaskoðunar og skilyrði geta skapast til veiða á fugli og fiski.

Á næsta ári, árið 2011, eru liðin 40 ár frá undirritun samningsins. Í tilefni þess munu aðildarríkin standa fyrir ýmsum viðburðum. Slagorð ársins 2011 er Skógar fyrir vatn og votlendi – Forests for water and wetlands.

Samningurinn var undirritaður þann 2. febrúar 1971 og fagna því margar þjóðir alþjóðlegum degi votlendis þann 2. febrúar. Eins og gefur að skilja er það ekki heppileg dagsetning á norðlægum slóðum þar sem votlendi eru oftar en ekki frosin á þessum tíma og lífríki í lágmarki. Ísland er aðili að svæðisbundnu átaksverkefni innan Ramsar samningsins sem gengur undir nafninu NorBalWet. Aðrar þjóðir sem koma að átaksverkefninu eru Noregur, Finnland, Danmörk, Svíþjóð, Eistland, Lettland, Litháen og Rússland. Þessar þjóðir hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að halda alþjóðlegan dag votlendis þann 2. september (eða í viku 35) ár hvert. Tilgangurinn með því að útnefna sérstakan alþjóðlegan dag votlendis er að auka vitund almennings á votlendismálefnum og Ramsar-samningnum.