Stök frétt

Í þessum pistli verður fjallað nánar um úrgang og umhverfisáhrif nútímaneyslumynsturs okkar. Skoðaðir verða möguleikar hvers og eins að lágmarka þau áhrif og hvernig megi hámarka lífsgæði sín án þess að fórna miklu. Hér birtast þrír pistlar eftir Cornelis Meyles sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, sem Morgunblaðið birti nýverið um úrgang og meðhöndlun hans. 

Allt sem við notum verður einhvern tímann að úrgangi. Hvert mannsbarn hér á landi hendir árlega tæpum þrjú hundruð kílóum af heimilisúrgangi  eða að meðaltali um sex sinnum okkar eigin líkamsþyngd og magnið eykst ár frá ári.

Með því að breyta neyslumynstri okkar má spara fé, vernda umhverfið og sporna gegn gróðurhúsaáhrifum. Komandi kynslóðir eiga rétt á því að hver og einn líti í eginn barm og hefjist handa.

Magn og samsetning heimilisúrgangs

Hvernig og hversu mikill úrgangur verður til á hverju heimili ræðst af ýmsum þáttum, til dæmis innkaupavenjum, hversu vel neytandinn nýtir vöruna, gæðum og líftíma hennar, tísku, magni umbúða og síðasta söludegi svo eitthvað sé nefnt. Einnig verður til úrgangur í görðum og iðulega fyllast ryksugupokar sem þarf að tæma eða henda.

Undanfarin ár hafa farið fram árlegar kannanir um samansetningu heimilisúrgangs. Þær sýna að heimilisúrgangi má gróflega skipta í fjóra meginflokka: matarleifar, umbúðir, pappír og annað. Skiptingin virðist almennt séð nokkuð jöfn milli þessa flokka, þannig að hver flokkur er um það bil fjórðungur af heildinni en auðvitað er nokkur breytileiki frá einu heimili til annars. Könnun sem þessi endurspeglar glögglega breytingar í neysluvenjum. Pappírsmagnið hefur til dæmis stóraukist síðan ókeypis dagblöð og auglýsingarbæklingar fóru að berast um lúguna í auknu mæli. Segja má að ruslapokinn sé lokapóstur nútímaneyslusamfélagsins.  

En þetta er ekki öll sagan.. Til að framleiða þann aragrúa af vörum sem við notum þarf hráefni, hjálparefni og orku og stór af þessu er ekki hluti af endanlegri vöru. Reiknað hefur verið út að til framleiðslu á einum tannbursta þarf allt að 1,5 kíló af aukaefnum, á einum farsíma þarf 75 kíló og til framleiðslu á einni fartölvu um 1.500 kíló. Þetta er hinn svo kallaði “ósýnilegi” úrgangur sem einnig fylgir vörunum. Ekki má svo gleyma þeim úrgangi sem fellur til vegna flutnings, umpökkunar vara. Samantekið er hver og einn ábyrgur fyrir hátt í 100 sinnum eigin líkamsþyngd af úrgangi ?árlega! Það er orðið tímabært að hver einstaklingur skoði eigið neyslumynstur út frá umhverfissjónarmiðum. 

Minnkum úrgang – stöndum saman!

Hver Íslendingur hendir árlega um sex sinnum eigin líkamsþyngd af heimilisúrgangi!


Forgangsröðun í meðhöndlun úrgangs

Stjórnvöld eru meðvituð um þau vandamál sem stafa af öllu draslinu sem landinn skilur eftir sig og hefur sett ný lög og reglugerðir til að bregðast við því mikla ruslaflóði. Ef ekki verður hressilega á málinu þá munum við hreinlega drukkna í úrgangi. Það tíðkast víða að sveitarfélög niðurgreiði þjónustu varðandi þennan málaflokk. Samkvæmt nýjum lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skal greiða fyrir kostnað vegna förgunar.  Þetta felur í sér að framleiðandi úrgangs þarf að borga raunverulegt gjald fyrir förgunina. Augljóslega leiðir þetta til hækkandi sorphirðugjalds víða á landinu en meira kemur til. Bæði tímasett og magnsett markmið hafa nú verið sett um endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs og koma þau m.a. fram í “Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs” (UST, 2004). Til dæmis hefur verið sett bann á urðun tiltekinna úrgangsflokka, svo sem heilla hjólbarða og brotamálma. Draga þarf úr urðun á lífrænum úrgangi svo sem matarleifum, pappír, timbri ofl.eða um 25% árið 2009, um 50% árið 2013 og 65% árið 2020, miðað við það magn sem til féll árið 1995. Innheimt er nú úrvinnslugjald á spilliefnum, drykkjarfernum og öðrum umbúðum, dekkjum, bílum ofl. og má gera ráð fyrir því að sá listi verði lengri áður en langt um líður. Í landsáætluninni kemur fram að stuðla verði að því að koma í veg fyrir að úrgangur verði til yfirleitt og að sá úrgangur sem myndist verði endurnotaður eða endurnýttur sem kostur er og sá hluti sem nýtist ekki verði fargað á ábyrgan hátt.

Efst í forgangsröðuninni er því að minnka úrgangsmagnið en síðan kemur að endurnotkun og endurvinnslu. Brennsla úrgangs með varmanýtingu kemur þar á eftir en urðun er neðst á þessum lista. Endurvinnsla getur verið vænlegur kostur í umhverfisvænni meðhöndlun úrgangs en vilji menn ná raunverulegum árangri í úrgangsmálum verður að minnka úrgang, þ.e. að koma í veg fyrir að úrgangur verði yfirleitt til. Einstaklingar geta endurnotað marga hluti eða stuðlað að lengri endingartíma vöru. Nokkur dæmi eru viðhald og viðgerð í stað nýkaupa, að gefa öðrum í stað þess að henda, kaupa margnota vöru í stað fyrir einnota, kaupa vandaða vöru sem endist lengur og kaupa hluti með sem minnstum umbúðum eða með áfyllingarskömmtum, t.d. fyrir þvottaefni. Það má bæta við þennan lista endalaust og með smá hugmyndaflugi er hægt að gera ótrúlegustu hluti. Mikilvægast er að íhuga vel áður en vara er keypt hvort virkilega er þörf fyrir hana. Það er oftar mun betri kostur en þú heldur að sleppa kaupunum. Skyldi allt dótið í bílskúrnum eða geymslunni kannski bera vitni um það? En eitt er víst, við höfum einfaldlega ekki lengur efni á því að sóa verðmætum.

Viltu poka?

Nærri lætur að um fjórðungur heimilisúrgangs séu umbúðir endafylgja þær nánast öllu því sem keypt er. Neytendur virðist sammála um að minnka skuli umbúðir, eftir því sem aðstæður leyfa, en hver á að gera það?  

Umbúðir eru búnar til úr mismunandi efnum á borð við (frauð)plast, pappír og karton, málm, gler eða blöndu af þeim. Gott dæmi eru leikföng sem pökkuð eru inn í pappakassa með glugga úr glærri plastfilmu. Inn í kassanum er svo gjarnan spjald úr stífum pappa. Til að halda öllu á sínum stað er svo notað ýmist glært hart plast eða málmbönd. Aukahlutir koma síðan oft í litlum plastpokum eða þeim haldið saman með öðrum hætti. Utan um þetta er síðan oft gjafapappír eða -plast. Þegar leikfangið er loks komið í notkun liggur í valnum mikill fjöldi umbúða sem eru oft mun meiri að fyrirferð en sjálft leikfangið. Ekkert þessara umbúða henta vel til endurvinnslu og því þarf að brenna þau eða urða. Að vísu hafa neytendur ekki mikil áhrif á það hvernig vörur eru settar fram í verslum en ljóst má vera að mikil innpökkunargleði kemur ekki að kostnaðarlausu; um er að ræða kostnað sem fylgir vörunni og kemur því fram í verðinu. Það er áhugavert rannsóknarefni hvort sambærileg vara sem kemur með færri umbúðum sé kannski fáanleg? Nettó kílóverðið af vöru í smærri neytandapakkningum er oft miklu hærri en ef keypt er í stærri einingum. Gott dæmi þar um eru örfáar skrúfur eða naglar í plastboxi, stykkja-pakkað nammi, hentug lítil dós af niðursuðuvöru svo bara eitthvað sé nefnt.

Pokaflóðið

Heimilisinnkaupunum fylgir líka gjarnan flóð af plast- og bréfpokum inn á heimilið. Algengt er að (auka)poki sé settur utan um vöru - sem þegar er pökkuð tryggilega. Það væri fróðlegt að telja hversu margir pokar berist inn á heimilið og síðan mætti spyrja sig hvort ekki væri hægt að draga úr fjöldi þeirra. Væri til dæmis mögulegt að draga úr notkun burðarpoka með því að geyma nokkur stykki í bílnum og endurnota þegar verslað er næst? Eða taka með sér innkaupatösku eða margnota taupoka? Eða afþakka aukapoka utan um vörur sem keyptar eru sér? Árlega eru seldar um 16 miljónir af burðarpokum á Íslandi, að meðaltali um 125 á hvert heimili? 

Úrvinnslugjald

Úrvinnslusjóður hefur frá og með áramótum tekið upp svo nefnt úrvinnslugjald á umbúðir.  Markmiðið er að skapa sem hagkvæmust skilyrði fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu umbúða. Fyrirkomulagið er svipað og gildir fyrir spilliefni; úrgangshafinn getur losað sig við flokkaðan umbúðaúrgang á næsta gámastöð eða endurvinnslustöð, sér að kostnaðarlausu þar sem inn í kaupverðinu er innifalið ákveðið gjald sem nægir fyrir flutning og endurnýting eða förgun þegar umbúðir eru orðnar að flokkuðum úrgangi. Úrvinnslugjald er þannig notað til að greiða fyrir meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöðvum, flutning, endurnýtingu, endurvinnslu eða förgun með eða án skilagjalds.

Úrgangshafinn getur takmarkað það úrgangsmagn sem hann annars myndi setja í ruslatunnuna sína heima. Íbúar í sveitarfélögum og hverfum þar sem boðið er upp á sveigjanlega sorphirðu geta þar með dregið úr losunartíðninni og borgað lægra sorphirðu- og eyðingargjald. Sveitarfélög hafa í hyggju að bjóða upp á sveigjanlega sorphirðu í náinni framtíð, m.a. til að stuðla að betri flokkun og endurnýtingu úrgangs. En hvað sem öllum aðgerðum sveitarfélaga liður, er árangurinn í að minnka úrgangsmagn frá heimilum að verulegu leyti undir neytendunum sjálfum komið. Ert þú með?