Umhverfistofnun - Logo

Húsafellsskógur, Borgarbyggð

Húsafellsskógur var friðlýstur fyrst árið 1974, en árið 2001 var friðlýsingin endurskoðuð. Húsafellsskógur er all víðáttumikill birkiskógur og vinsælt útivistarsvæði. Fjarlægð frá sjó ásamt því að vera í nágrenni við lindir og ár gera Húsafell að sérstæðu búsvæði. Birki er nánast eina upprunalega trjátegundin í landinu sem myndar skóg. Birkiskógar eru taldir hafa þakið allt að 30% landsins við landnám en þekja nú aðeins 1.2%. 

Stærð friðlandsins er 436,7 ha.

Aðgengi 

Húsafellsskógur er vel aðgengilegur. Gönguleið liggur frá þjónustumiðstöðinni og er þar jafnframt hægt að sjá kort af svæðinu og upplýsingar um gönguleiðir. Í gegnum friðlandið er gamall vegur sem nýtist vel til hverskyns útivistar og er töluvert nýttur af gestum svæðisins.  

Umgengisreglur 

  • Mannvirkjagerð, jarðrask og breytingar á landi eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar og landeigenda. 
  • Almenningi er heimil för um svæðið og dvöl þar í löglegum tilgangi, enda sé góðrar umgengni gætt.  
  • Bannað er að skerða gróður, skaða dýralíf, spilla vatni eða skemma jarðmyndanir að óþörfu. 
  • Akstur er leyfður á vegum og merktum slóðum. 
  • Beit búfjár er óheimil í friðlandinu. Rekstur afréttarfjár gegnum friðlandið er bannaður.  

Öllum er heimil för um svæðið. Göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni og öðrum gestum.

  

Um friðlandið 

Húsafellsskógur er landi Húsafells í uppsveitum Borgarfjarðar. Húsafell hefur verið þekktur sumarleyfisdvalarstaður Íslendinga í fjölda ára. Húsafell er gömul megineldstöð og má víða finna leifar og ummerki hennar. Mikil litadýrð er á svæðinu á öllum árstímum, sumar, vetur, vor og haust. Margir merkir listamenn hafa sótt innblástur í land Húsafells og inn á svæðinu má sjá listaverk eftir Páll Guðmundsson listamann frá Húsafelli. Meðfram gönguleið má sjá ýmsar kynjaverur eftir Pál.   

Sauðfjárbeit var lengi töluvert mikil í Húsafellsskógi og lítil endurnýjun var á birki og land orðið illa farið. Með beitarfriðun hefur skógurinn tekið við sér og er í dag afar blómlegur, mikil endurnýjun er í birki og hefur skógurinn vaxið jafnt og þétt